Metnaðarfull uppbygging í Vogum
Reykjanesbær lýsir ánægju með metnaðarfulla uppbyggingu í nágrannasveitarfélaginu Vogum og gerir engar efnislegar athugasemdir við skipulagslýsingu Sveitarfélagsins Voga sem óskaði umsagnar vegna skipulagslýsinga íbúðarbyggða ofan við Dali, austan núverandi byggðar.
Viðfangsefni deiliskipulagsins er m.a. að skipuleggja lágreista íbúðarbyggð með um 250 íbúðum í sérbýlishúsum. Gert er ráð fyrir að aðkoma akandi verði frá Vogavegi og Iðndal. Lögð verður áhersla á að lóðir og byggingar falli sem best að landslagi og verða skilmálar settir varðandi slíkt í deiliskipulagi.
Íbúðarbyggð norðan núverandi byggðar í Grænuborg. Viðfangsefni deiliskipulagsins er m.a. að skipuleggja íbúðarbyggð með um 330 íbúðum í sérbýlishúsum og fjölbýlishúsum. Gert er ráð fyrir að einbýlishús og parhús á einni hæð verði vestast á svæðinu, næst ströndinni, en þar fyrir ofan komi lítil fjölbýlishús eða raðhús á tveimur hæðum. Stærri og hærri fjölbýlishús (allt að fjórar hæðir) verða við norðurjaðar svæðisins næst Vatnsleysustrandarvegi. Dælustöð fráveitu verður vestan og neðan byggðarinnar. Lögð verður áhersla á að lóðir og byggingar falli sem best að landslagi og verða skilmálar settir varðandi slíkt í deiliskipulagi.