Metflugumferð á íslenska flugstjórnarsvæðinu í júlí
Aldrei hafa fleiri flugvélar í millilandaflugi flogið um íslenska flugstjórnarsvæðið á einum mánuði eins og í síðasta mánuði. Alls flugu 12.439 vélar um svæðið en fyrra metið 12.114 var sett í júlí 2008. Flugumferð þessari er stjórnað úr flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík.
Að sögn Þórdísar Sigurðardóttur, yfirflugumferðarstjóra hjá Isavia þá var umferðin jöfn og þétt alla daga „Flugstjórnarmiðstöðin í Reykjavík er vel í stakk búin til að takast á við aukna flugumferð enda vinnur þar samhentur hópur starfsmanna Isavia“ sagði Þórdís. Hún vildi einnig þakka þakka starfsmönnum Isavia í fjarskiptastöðinni í Gufunesi sem unnu vel á þessum álagstíma.
Þrátt fyrir snögga og skyndilega umferðarminnkun í kringum eldgos í Grímsvötnum í maí þá hefur heildarumferð yfir árið aukist um 8,5% frá því í fyrra. Flugumferð yfir Norður Atlantshafið er nú óðum að ná sér eftir niðursveifluna sem varð á árunum 2008/2009 og flugumferð vex nú jafnt og þétt í hverjum mánuði.