Metanólverksmiðja í undirbúningi í Svartsengi
Andri Ottesen og Haukur Óskarsson frá Carbon Recycling International ehf. funduðu með bæjarráði Grindavíkur á dögunum og kynntu stöðu mála varðandi byggingu metanólsverksmiðju í Svartsengi. Verksmiðjan er tilraunastöð, fyrsti áfangi í röð frekari mannvirkja. Bæjarráð bindur vonir við að á árinu verði farið í fyrirhugaðar framkvæmdir þar sem skipulag í Svartsengi liggur fyrir.
Hitaveita Suðurnesja hf. og fyrirtækið Carbon Recycling International ehf. hafa undirritað samstarfssamning um að reka verksmiðju sem breytir koltvísýringsútblæstri frá jarðvarmavirkjuninni við Svartsengi í metanól, fljótandi eldsneyti fyrir bíla og önnur faratæki. Þetta verður fyrsta verksmiðja sinnar tegundar í heiminum. Umhverfismat fyrir verksmiðjuna er þegar lokið og verksmiðjan er komin á deiliskipulag Grindarvíkurbæjar.
„Árleg afkastageta verksmiðjunnar, sem staðsett verður á svæði Hitaveitu Suðurnesja á Svartsengi, verður 4,2 milljón lítrar af metanóli sem er blandað út í bensín fyrir óbreytta bíla. Verksmiðjan mun hefja framleiðslu á síðari hluta næsta árs og umbreyta daglega um 18 tonnum af CO2 í um 12.500 lítra af bílaeldsneyti. Samstarfssamningurinn gerir einnig ráð fyrir að Hitaveita Suðurnesja og Carbon Recycling International muni í sameiningu reisa aðra verksmiðju á Reykjanesi árið 2011 með tuttugufaldri afkastagetu Svartsengi-verksmiðjunnar eða um 100 milljón lítra af metanóli á ári með orkuþörf upp á 50 MW," segir Andri Ottesen, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs hjá CRI. Reiknað er með að um 30 störf skapist við þá verksmiðju sem verður álíka að stærð og umfangi og núverandi starfsemi Hitaveitu Suðurnesja að Svartsengi.
Helstu aðstandendur CRI fyrirtæksins eru Landsbankinn, Olís, Hitaveita Suðurnesja, Mannvit, bandaríski fjárfestingasjóðurinn Focus Group, einnig eru einstaklingar á bak við fyrirtækið eins og Sindri Sindrason sem gegnir stöðu stjórnarformanns og Bjarni Ármansson sem einnig gegnir stjórnarsetu. Fyrir ráðgjafaráði fyrirtækisins eru Georg Olah, nóbelsverðlaunahafi í efnafræði 1994 og Þorsteinn Sigfússon, handhafi hinna rússnesku orkuverðlauna. Fyrirtækið var stofnað í mars 2006 af þeim Friðrik Jónssyni, Art Schullenberger, Oddi Ingólfssyni og KC. Tran.
„Markmið fyrirtækisins er að vera leiðandi í heiminum við að þróa tækni sem nýtir og umbreytir koltvísýringsútblæstri yfir í nýtanlegt hráefni til að búa til eldsneyti á bensín og díselbíla og önnur farartæki án þess að breyta þurfi á neinn hátt gangverki bílsins og nota núverandi mannvirki við dreifingu og sölu. Gangi áætlanir fyrirtækisins til ársins 2015 eftir þá er reiknað með að árleg minnkun koltvísýringsútblástur verði um milljón tonn og framleiðsla eldsneytis verði um 440 milljón lítra það ár sem mun að bestu leyti verða flutt út til sölu erlendis," segir Andri.