Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Metaðsókn í tæknifræðinám Keilis
Mánudagur 11. júní 2012 kl. 11:45

Metaðsókn í tæknifræðinám Keilis

Metaðsókn er í tæknifræðinám Keilis , en ríflega 40% aukning var á umsóknum í námið milli ára. Aldrei fleiri umsóknir hafa borist í tæknifræðinámið en fyrir komandi haustönn og er þessi aukni áhugi nemenda í samræmi við áherslur atvinnulífsins um stóreflingu tæknimenntunar á Íslandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Í nýlegu riti Samtaka atvinnulífsins "Uppfærum Ísland" kemur fram að fjölga þurfi útskrifuðu fólki úr verkfræði, tækni- og raunvísindanámi á Íslandi. Mikil tækifæri felast í þeim hluta atvinnulífsins sem er kallaður hátæknigeirinn, en nú þegar er æpandi eftirspurn fyrirtækja eftir starfsfólki sem hefur aflað sér raungreina- og tæknimenntunar á háskólastigi.


Tæknifræðinám Keilis er unnið í nánu samstarfi við fyrirtæki í tækni- og hugverkagreinum sem stuðlar að gagnvirkum samskiptum við atvinnulífið og raunverulegum nemendaverkefnum. Mikil áhersla hefur undanfarið verið lögð á að kynna tæknifræðinám Keilis fyrir nemendum sem lokið hafa iðnnámi og starfandi iðnaðarmönnum og er nálgun og uppbygging námsins mun verklegri en gengur og gerist í háskólanámi. Námið hentar því vel þeim sem hafa verkvit og áhuga á tæknilegum lausnum og nýsköpun.


23. júní næstkomandi útskrifast fyrsti árgangur háskólanemendenda Keilis en 15 nemendur munu þá ljúka BS námi í tæknifræði. Þau öðlast um leið réttindi til að sækja um starfsheiti tæknifræðings til Tæknifræðingafélags Íslands.


Mikil aðsókn var enn fremur í annað námsframboð Keilis fyrir haustönn 2012. Verið er að vinna úr umsóknum fyrir haustið í flugtengdu námi, ÍAK einkaþjálfaranámi og Háskólabrú. Áhugasömum er bent á að hafa samband við forsvarsmenn Keilis um möguleika á að senda inn síðbúna umsókn.