Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Metaðsókn hjá MSS
Föstudagur 2. apríl 2010 kl. 13:04

Metaðsókn hjá MSS

-boðið upp á ýmsa þjónustu sem nýtist atvinnulausum


Tæplega 3500 nemendur nýttu sér þjónustu Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum á síðasta ári sem er metþátttaka. Þátttakendur nýttu sér allt frá stuttum tómstundanámskeiðum til námsmöguleika sem gerir fólki kleift að stunda nám á háskólastigi. Stöðugur vöxtur hefur verið í námi og þjónustu hjá MSS og hefur auknu atvinnuleysi fylgt meiri eftirspurn eftir henni. Hjá MSS er boðið upp á ýmsa þjónustu fyrir þá sem eru atvinnulausir. Meðal annars er hægt að nefna náms- og starfsráðgjöf, áhugasviðsgreiningar og námskeið.


„Ef fólk er að velta fyrir sér hvað það eigi að gera í kjölfar atvinnumissis getur það hringt hingað til okkar í MSS og fengið viðtal hjá náms- og starfsráðgjafa. Við tökum vel á móti öllum og hingað eiga allir að geta leitað sem vilja huga að möguleikum sínum í starfi og námi. Margir leita til okkar til að skoða hvaða möguleika þeir eiga á starfi og hvað þeir þurfa hugsanlega að bæta við sig til að koma sér í ákveðið starf eða bara til að bæta sig á vinnumarkaði almennt. Allir geta fengið viðtal þeim að kostnaðarlausu. Einnig vil ég taka fram að okkar náms- og starfsráðgjafar hafa góða þekkingu á öllum skólastigum og námi sem mismunandi fræðsluaðilar bjóða upp á,“ segir Guðjónína Sæmundsdóttir, forstöðumaður MSS.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Hún segir atvinnumissi geta orðið til þess að viðkomandi fari að skoða hvað hann vill virkilega gera í lífinu eða hvernig hann geti nýtt sér kringumstæðurnar til að gera eitthvað sem hann hefði kannski ekki gert.


„Þá getur verið gott að skoða hvert áhugasviðið er. Við bjóðum upp á áhugasviðsgreiningar og fróðlegt er fyrir einstaklinga að skoða með náms- og starfsráðgjafa hvað hægt er að gera út frá niðurstöðunum.


Síðan í október höfum við boðið upp á ráðgjöf við gerð færnimöppu, ferilskrá og áhugasviðsgreiningar. Við tökum inn tvo hópa í hverri viku og er aðsóknin góð. Þátttaka er öllum að kostnaðarlausu og því hvetjum við fólk til að hafa samband við okkur.


Atvinnulausir hafa verið duglegir að sækja námskeið hjá okkur á undanförnu ári. Hafa þeir m.a. sótt námskeiðið Færni í ferðaþjónustu, Skrifstofuskólann, Sterkari starfsmaður – upplýsingatækni, DK-tölvubókhald og í norsku. Með þessum námskeiðum hafa einstaklingar bætt færni sína og möguleika á að komast í vinnu,“ sagði Guðjónína.