Metaðsókn hjá Keili
Hátt á fjórða hundrað umsóknir hafa borist um nám á vormisseri hjá Keili sem eru þrefalt fleiri en í fyrra. Umsóknarfrestur rennur út á morgun, 20. janúar.
Boðið er upp á fjölbreytt nám á framhalds- og háskólastigi, bæði í staðnámi og fjarnámi. Flestir hafa sótt um nám við Háskólabrú sem er samstarfsverkefni Keilis og Háskóla Íslands. Háskólabrúin býður upp á aðfararnám á vegum HÍ fyrir einstaklinga sem ekki hafa lokið stúdentsprófi. Að loknu námi uppfylla nemendur almenn inntökuskilyrði innlendra háskóla og telst námið almennt sambærilegt stúdentsprófi samkvæmt samningi Keilis, HÍ og menntamálaráðuneytisins.
Þá er einnig nú á vormisseri boðið upp á fjölbreytt starfstengt nám með sérstakri áherslu á flug og samgöngur. Má þar nefna einkaflugmannsnám, atvinnuflugmannsnám og nám í flugumferðastjórnun.
Á háskólastigi verður tekinn inn nýr hópur í frumkvöðlanám sem fram fer í samstarfi Keilis við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og verkfræðideild HÍ og nýtt nám í tæknifræði í samstarfi Keilis og Háskóla Íslands þar sem boðið er upp á tvær námslínur, orkutæknifræði og mekatróník.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Keili. Þar segir einnig að uppbygging Keilissvæðisins á Vallarheiði hafi gengið vel. Nemendur Keilis á vormisseri verða um 600 og tæplega 2.000 manns búa nú á háskólasvæðinu.