Met slegið í viðbragðsflýti TF-LÍF
Mannbjörg varð er mjölflutningaskipið Trinket strandaði í innsiglingunni til Grindavíkur um hádegisbilið í dag. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út en er hún kom á staðinn hafði dráttarbátum frá Grindavík tekist að losa skipið af strandstað. Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli var einnig í viðbragðsstöðu. Reykjavíkurradíó hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 12:49 og tilkynnti um vélarvana skip sem ætti í erfiðleikum í innsiglingunni til Grindavíkur. Þá var búið að kalla út björgunarsveitir á Suðurnesjum. Neyðarlínan hringdi mínútu síðar og gaf samband við hafnarstjórann í Grindavík sem óskaði eftir þyrlu til aðstoðar vegna skipsins sem hafði strandað í innsiglingunni. Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var þegar kölluð út, þ.e. kl. 12:54 og fór TF-LÍF í loftið 11 mínútum síðar eða kl. 13:05. Þar með var sett nýtt met í viðbragðsflýti samkvæmt upplýsingum flugdeildar Landhelgisgæslunnar.
Um er að ræða mjölflutningaskip á vegum Eimskip sem kallast Trinket en það er 1574 brt. að stærð. Um borð voru 6 skipverjar.
Hafnarstjórinn í Grindavík tilkynnti kl. 13:13 að tekist hefði að losa skipið af strandstað og það væri komið inn í höfnina. TF-LÍF hélt til Reykjavíkurflugvallar kl. 13:22 og lenti þar kl. 13:31.
Vísir.is greinir frá þessu í dag. Mynd af vef Landhelgisgæzlunnar.
Um er að ræða mjölflutningaskip á vegum Eimskip sem kallast Trinket en það er 1574 brt. að stærð. Um borð voru 6 skipverjar.
Hafnarstjórinn í Grindavík tilkynnti kl. 13:13 að tekist hefði að losa skipið af strandstað og það væri komið inn í höfnina. TF-LÍF hélt til Reykjavíkurflugvallar kl. 13:22 og lenti þar kl. 13:31.
Vísir.is greinir frá þessu í dag. Mynd af vef Landhelgisgæzlunnar.