Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 15. mars 2002 kl. 06:39

Mesta verðbóla í áratug og hf-væðing

Veiking krónunnar ásamt mjög umtalsverðum launahækkunum umfram samsvarandi framleiðniaukningu, urðu þess valdandi að verðbólga jókst mjög verulega á síðasta ári. Verðbólgan var 9,4% frá upphafi til loka árs og hefur slík tólf mánaða hækkun ekki sést frá því á árinu 1990. Þetta kemur fram í ræðu Geirmundar Kristinssonar, Sparisjóðsstjóra sem var að ljúka rétt í þessu á aðalfundi Sparisjóðsins í Keflavík í Bláa lóninu.Fundarstjóri, ágætu stofnfjáraðilar og gestir.
Eins og undanfarin ár ætla ég áður en ég skýri ársreikninginn fyrir starfárið 2001, að tæpa á nokkrum málum sem mér finnst ástæða til að ræða við ykkur ágætu stofnfjáraðilar.

Ytri aðstæður eru einn stærsti áhrifavaldur í afkomu einstaklinga og fyrirtækja á hverjum tíma. Ráðdeild og aðhald geta fallið í skuggan fyrir þessum þætti þegar þannig árar, og gert að engu markmið og stefnur. Ekki er ég með þessu að gefa í skyn að afkoma Sparisjóðsins í Keflavík fyrir árið 2001 hafi liðið fyrir þetta, heldur fyrst og fremst að minna á hve mikilvægt er að stöðugleiki í þjóðarbúskapnum haldi.

Ætla ég því í upphafi að fara yfir nokkra þætti sem teljast til þessa ytra umhverfis, og vitna í heimildir frá Þjóðhagsstofnun.

Margvíslegar umbætur í þjóðarbúskapnum á síðustu árum hafa gert það að verkum að fyrirtækin og heimilin í landinu er miklu betur í stakk búinn en nokkru sinni fyrr, til að takast á við tímabundin efnahagsvandamál. Fyrirtækin hafa verið að hagnast á síðustu árum, sem hefur gert þeim kleift að búa í haginn fyrir framtíðina. Staða heimilanna hefur batnað að því marki, að kaupmáttur hefur aukist um 27 % frá árinu 1994, en aftur á móti eru heimilin í landinu verulega skuldsett.

Svokallað góðæri hefur því breytt lífskjörum mikið á síðustu árum. Ætti því tímabundin stöðvun hagvaxtar ekki að hafa verulega skaðleg áhrif. Það sem skiptir mestu máli er að byggja vel undir nýtt hagvaxtarskeið.

Síðastliðið ár var einkar viðburðarríkt á sviði efnahagsmála. Á árinu 2001 lauk einu mesta góðæri í sögu þjóðarinnar, en við tók umhleypingaskeið í þjóðarbúskapnum.

Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum Þjóðhagsstofunar jókst landsframleiðslan um 2,2% að magni til á síðasta ári. Þetta eru veruleg umskipti frá fyrri árum, en hagvöxtur var um 4,8% að meðaltali á uppgangsárunum 1996 – 2000. Þessar breytingar má einkum rekja til þess að verulega dró úr vexti einkaneyslu og fjárfestingu á síðastliðnu ári. Reiknað er með að einkaneysla hafi dregist saman um 2,0% og fjármunamyndun um 6,3%. Á hinn bóginn jók hið opinbera samneyslu um 3,4%. Í heild drógust þjóðarútgjöldin saman um 2,8%. Til samanburðar má geta þess að á árinu 2000 jukust þjóðarútgjöld um 6,2%. Ljóst er því að einstaklingar og fyrirtæki hafa dregið verulega saman umsvif sín í neyslu og fjárfestingu.

Afleiðing þess mikla vaxtar sem verið hefur í þjóðarútgjöldunum umfram þjóðartekjur, er mikill og þrálátur viðskiptahalli. Áætlað er að viðskiptahallinn hafi numið um 33 milljörðum króna á síðastliðnu ári, sem er langt umfram það sem efnahagslífið hér á landi stenst til lengdar. Viðskiptahallinn, ásamt gengislækkun krónunnar og þrenginga á erlendum hlutabréfamörkuðum hefur valdið því, að nettó eignastaða þjóðarbúsins gagnvart útlöndum fer hratt lækkandi, og er nú komið svo að óvíða í OECD-ríkjunum er hún lægri. Þessi þróun er óheillavænleg að mínu mati vegna þeirrar vaxandi greiðslubyrði sem skuldasöfnun erlendis hefur í för með sér.

Þróun viðskiptajafnaðarins var þó nokkuð jákvæðari en búast mátti við fyrir árið í heild. Lækkun á gengi krónunnar, hagstæðara olíuverð og hækkun á útflutningsverði sjávarafturða, sérstaklega undir lok ársins skiluðu sér í umtalsverðri minnkun hallans á vöru- og þjónustuhlið. Mikilvægt er að aðlögun þjóðarútgjalda að þjóðartekjum haldi áfram, þannig að betra jafnvægi náist í viðskiptum við útlönd.

Á síðastliðnu ári varð vart mikillar og vaxandi spennu í verðlags- og gengismálum, og man ég ekki eftir slíkum óróleika um margra ára skeið. Gengi krónunnar tók að lækka verulega í upphafi árs og gerði Seðlabankinn nokkrar tilraunir til að verja vikmörk krónunnar með inngripum á gjaldeyrismarkaði, m.a. síðari hluta janúarmánaðar og síðan aftur undir lok marsmánaðar, eftir að verulegar hræringar höfðu átt sér stað fyrir aðalfund Seðlabankans. Veruleg tíðindi urðu þann 27. mars þegar Seðlabankinn og stjórnvöld tilkynntu um breytt fyrirkomulag við stjórn peningamála hér á landi. Í stað þess að miða peningastefnuna við að halda gengi krónunnar innan vikmarka, var ákveðið að miða við 2½% verðbólgumarkmið. Skiptar skoðanir hafa verið uppi um þessar breytingar, en merki eru þó uppi nú um að aðgerðir Seðlabankans séu að bera árangur. Þannig styrktist krónan talsvert uppúr lokum nóvembermánaðar og hefur sú þróun haldið áfram það sem af er þessu ári.

Veiking krónunnar ásamt mjög umtalsverðum launahækkunum umfram samsvarandi framleiðniaukningu, urðu þess valdandi að verðbólga jókst mjög verulega á síðasta ári. Verðbólgan var 9,4% frá upphafi til loka árs og hefur slík tólf mánaða hækkun ekki sést frá því á árinu 1990. Meðal verðlagshækkanir milli áranna 2000 og 2001 voru á hinn bóginn 6,7% og hafa slíkar stærðir ekki sést frá því á árinu 1991. Þetta er að sjálfsögðu afar óheillavænleg þróun og langt umfram það sem er að gerast í ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Allt bendir þó til þess að lát sé á verðhækkunum með hjöðnun viðskiptahallans og styrkingu krónunnar í kjölfarið.

Launahækkanir hafa verið umtalsverðar hér á landi á síðastliðnum árum, sem leitt hefur til mjög umtalsverðrar kaupmáttaraukningar launafólks. Launavísitalan hækkaði um 9,6% á árinu 2001 sem er um tveimur prósentustigum meira en á árinu 2000 þrátt fyrir mun lakari efnahagsskilyrði. Fróðlegt er að bera þessar hækkanir saman við framleiðni, mælda sem aukning landsframleiðslu umfram vöxt vinnuafls. Þar kemur í ljós að framleiðniaukningin minnkaði úr 2,7% á árinu 2000 í einungs 1% á árinu 2001. Þessar tölur benda til þess að atvinnulífið geti ekki staðið að fullu undir þeim kostnaðarhækkunum, sem aukning launa hefur í för með sér án þess að velta þeim út í verðlagið að einhverju marki. Hættan er sú að þessi þróun, sem hófst á síðasta ári muni leiða til víxlverkana launa og verðlags og þannig lakari efnahagsskilyrða en ella.

Þróun verðlags- og gengismála leiddi þó til þess að starfsskilyrði útflutnings- og samkeppnisgreina bötnuðu verulega við lækkun raungengisins, og mjög dró úr innflutningi. Rekstrarskilyrði þeirra útflutningsfyrirtækja sem skulda mikið í erlendum gjaldmiðlum voru þó erfið, enda hækkaði bókfært gengistap af erlendum lánum.

Áætlaðar tölur um veltu og hagnað atvinnurekstrarins í landinu á sl. ári benda til þess, að árið hafi komið betur út en horfur voru á fyrrihluta ársins. Þannig skiluðu skráð fyrirtæki um 10,2% hagnaði af veltu fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Hagnaður eftir skatta var um 1,3% af veltu. Þetta má án efa rekja til endurskipulagningar, sameininga félaga og vöruþróunar sem leitt hefur af sér aukinn virðisauka í rekstrinum. Styrking krónunnar undir lok ársins hafði jákvæð áhrif og lækkun tekjuskattshlutfalls úr 30% í 18% mun hafa áhrif á rekstrarniðurstöðu síðasta árs, hjá mörgum fyrirtækjum í formi tekjufærslu vegna lækkunar á tekjuskattsskuldbindningum í efnahagsreikningi.

Þróun í öðrum efnahagsstærðum var með þeim hætti sem vænta mátti, miðað við þau skilyrði sem ríktu á árinu 2001. Markverðast er að ofþensla var áfram einkennandi á vinnumarkaði sem merkja má af litlu atvinnuleysi og umframeftirspurn eftir vinnuafli.

Víkjum því næst að innlendum fjármagnsmarkaði og skoðum það helsta sem þar gerðist.

Eftir umtalsverðan útlánavöxt innlánsstofnana fór að draga úr útlánum eftir mitt árið 2001. Þegar árið er gert upp kemur í ljós að útlán innlánsstofnana jukust um 17½% að nafnvirði á árinu 2001 samanborið við 26% vöxt á árinu 2000. Ef áhrif gengis og verðbreytingrauppfærslu eru tekin út varð um 7½% útlánavöxtur á sl. ári samanborið við 20% árið á undan.

Útlán annarra stofnana vógu að hluta upp minni vöxt innlánsstofnana. Skýringin á því felst m.a. í útlánum lífeyrissjóða til sjóðfélaga sinna, en í nóvember 2001 höfðu þau vaxið um 21% á föstu verðlagi frá sama tíma árið undan samkvæmt upplýsingum Seðlabankans. Útlán fjárfestinarlánasjóða jukust um 18% á 12 mánuðum til loka nóvember og útlán Íbúðalánasjóðs um 7%. Það er því ljóst að aðrar fjármálastofnanir eru að auka hlut sinn nokkuð í lánastarfseminni á kostnað innlánsstofnana.

Hlutabréfamarkaðurinn er farinn að styrkjast á ný, eftir verulega niðursveiflu á síðasta ári, sem skýrist að hluta af meiri bjatsýni á framgang innlendra efnahagsmála, auk vaxtalækkunarinnar í nóvember.

Það sama má segja um skuldabréfamarkaðinn sem sveiflaðist mikið á árinu hvað veltu og ávöxtunarkröfu snertir. En þegar á árið leið minnkaði verðbólguálag markaðarins nokkuð, sem bendir til að aukinnar bjartsýni gæti um efnahagshorfur.

Eftir þessa yfirferð á því helsta sem mér fannst eiga erindi til okkar hér á þessum fundi, ætla ég mér að færa umræðun inn á málefni sem eru ekki síður nær okkur, en þar á ég við innri málefnin.


Á vettvangi samstarfs sparisjóðanna einkenndist árið af nokkru ósætti, svo ekki sé meira sagt. Þetta ósætti átti rætur sínar að rekja til sölu Sparisjóðs Vélstjóra á hlut sínum í Kaupþingi sem ég gat um á síðasta aðalfundi, og lélegrar afkomu Sparisjóðabankans. Einnig urðu deilur um málefni Alþjóða líftryggingafélagsins, en Kaupþing h.f. sem er þar mjög stór hluthafi hafði lýst því yfir að þeir vildu kaupa meirihluta og aðlaga það sínum rekstri. Af þessum sökum voru fengnir ráðgjafar KPMG til aðstoðar við að leysa málin, og móta stefnu til næstu ára. Þetta tókst að nokkru leyti, því aðilar sættust á að vinna samstíga að málefnum sparisjóðanna og gáfu bankanum heimild til að selja hlut sinn í dótturfyritækjum. Þetta gæti haft þau áhrif að sparisjóðirnir ættu ekki til framtíðar litið að fullu dótturfyritæki sín, frekar en þegar þeir seldu Kaupþing í fyrra. KPMG vinnu áfram að því að móta stefnu sparisjóðanna og bind ég miklar vonir við að þeim takist að ljúka verkefninu. Ég tel að í dag sé nokkuð góður andi í sparisjóðafjölskyldunni.

Þar sem dótturfélög hafa komið við sögu hér að framan, er ekki úr vegi að ræða örlítið um þau. Frjálsi Fjárfestingabankinn var seldur á árinu og varð dágóður hagnaður af sölu hans. Ég gat þess á síðasta aðalfundi að stjórn sjóðsins hefði ákveðið að halda áfram á hlutum okkar í Kaupþingi h.f. Þetta álit hefur verið ítrekað, og nú sem stendur er ekki markmið að selja það félag, og ákvað stjórnin einnig á árinu að fjárfesta í Sp-eignarhaldsfélagi sem heldur utan um hlutabréf í Kaupþingi. Aftur á móti er spurning þegar Sparisjóðabankinn selur hluti sína í öðrum dótturfélögum svo sem SP fjármögnun og Alþjóða líftryggingafélaginu, eins og heimild er fyrir nú, hvort aðrir sparisjóðir geri það sama og selji. En ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú, að með nýjum reglum Fjármálaeftirlitsins er nú skylda við útreikning eiginfjárhlutfalls, að draga eignarhluta í öðrum fjármálafyrirtækjum að fullu frá í þeim útreikningi, sem þýðir að CAD hlutfallið lækkar sem því nemur, og hefur veruleg áhrif á eiginfjár hlutfall margra sparisjóða, svo sem okkar.

Einnig hefur Fjármálaeftirlitið sent tilmæli til allra banka og sparisjóða þar sem segir, að þrátt fyrir að lögleg lágmarksmörk eiginfjárhlutfalls séu 8%, gerir eftirlitið kröfu til banka og sparisjóða um að mörkin séu 10% í stað 8%, og 8% án víkjandi lána. Þessi ákvörðun er tekin með tilliti til þeirrar áhættu sem eftirlitið telur að sé í íslenskum bankarekstri og með hliðsjón af aðgerðum annarra þjóða.

Þegar fjármálafyrirtæki í eigu banka og sparisjóða koma að fullu til frádráttar við útreikning eiginfjárhlutfalls, og þegar lágmarkskröfur um eigið fé eru hækkaðar úr 8% í 10% er okkur nokkur vandi á höndum ef Sparisjóðurinn á að vaxa og dafna eins og undanfarin ár.

Hægt væri að selja eignarhluti okkar í dótturfélögum og öðrum fjármálafyrirtækjum til að laga hlutfallið. En gallinn er sá að þessi eign verður fljótt uppurin, og ekki heldur víst að verðin væru í hámarki þegar þörf væri á að selja, sem gætið valdið ómetanlegu tjóni.

Ein leið væri að draga saman í rekstrinum, minnka útlán og minnka þjónustustig smátt og smátt. Sú leið held ég að þjóni að minnsta kosti ekki viðskiptavinum sparisjóðsins, né sé sú framtíð sem við viljum sjá.

Víkjandi lántaka hefur verið bráðabirgðalausn í svona tilfellum, og á síðasta ári tókum við 243 milljónir að láni til lagfæringa á eiginfjárhlutfalli, en eins og áður sagði er um bráðabirgðaúrræði að ræða.

Útgáfa stofnfjárbréfa hefur fram að þessu verið eina varanlega lausnin til að auka eigið fé, það hefur komið sér afar vel,og aukið á vaxtamöguleika sjóðsins. Helstu ókostir stofnfjárins eru að í hvert skipti sem útboð fer fram, er nauðsynlegt að gefa út bréf að nafnverði fyrir allri vöntuninni,þar sem enginn skipulagður markaður er fyrir þau bréf. Einnig eru þessi bréf lítt þekkt bæði innan sem utanlands,sem gerir eftirspurn eftir þeim takmarkaða.

Aftur á móti varð að lögum 18.maí s.l frumvarp sem styrkir samkeppninstöðu sparisjóðanna verulega. Þetta frumvarp fjallar m.a. um að heimilt verði að stofna hlutafélag utan um sparisjóð, eins og við höfum áður farið yfir á tveim aukafundum og síðasta aðalfundi. Þetta breytta lagaumhverfi tryggir að minu mati framtíð Sparisjóðsins. Vaxtamöguleikarnir eru tryggðir, ódýrara lánsfé kynni að vera í boði,kemur til móts við hertar eiginfjárreglur og gerir okkur áfram kleift að eiga í dótturfyrirtækjum svo eitthvað sé nefnt. Einnig er skipulagður markaður með hlutabréf sem gerir kleift að gefa út á nafnverði,og selja á tilteknu gengi.

Á síðasta aðalfundi greindi ég ykkur frá því, að ráðgjafa og endurskoðurnafyrirtækið Deloitte&Touch hafi verið ráðið til að aðstoða okkur við ákvarðantöku hvað hlutafélagavæðingu varðar. Fulltrúi þeirra skýrir okkur frá valmöguleikum síðar á fundinum undir sérstökum dagskrárlið. Einnig mun fulltrúi frá Landslögum skýra okkur frá lagalegum þáttum þessa sama máls, undir sama dagskrárlið.

Einn þáttur í því að undirbúa Sparisjóðinn undir framtíðina, var stefnumótunarvinna sem staðið hefur nærri látlaust frá haustmánuðum s.l. Vinnan fór þannig fram að helstu stjórnendur sjóðsins mynduðu hópa sem funduðu reglulega með hópstjóra frá DT. Samhliða var starfandi stýrihópur sem fór yfir niðustöðurnar, og dró þær saman. Þessum áfanga í stefnumótun er nú að ljúka, en eitt síðasta verkefnið var að gera viðhorfskönnun á meðal starfsfólks Sparisjóðsins, til að kanna viðhorfin til fyrirtækisins sem vinnustaðar. Það er skemmst frá því að segja að niðurstöðurnar úr könnuninni voru afar jákvæðar svo ekki sé meira sagt, og bæði stjórnendum og örðum starfsmönnum til uppörvunar og hvatningar í nútíð og framtíð.

Síðasta starfsár var í mörgu líkt því fyrra, hvað afkomu snertir.Útlánaeftirspurn mikil, sparnaður rýr en vanskil í sögulegu lágmarki á ný. Ætla ég að gera þessum þáttum nokkur skil.

Afkoman bar nokku merki verbólgu, en verðtryggingarjöfnuður Sparisjóðsins, þ.e. verðtryggð útlán á móti verðtryggðum innlánum er á þann veg að hlutfall tekna en nokkuð hærra en gjalda, sem gaf okkur betri afkomu. Eins og ég gat um á síðasta aðalfundi keyptum við hlut í Frjálsa Fjárfestingabankanum ásamt Kaupþingi, Spron, Sparisjóði Bolungarvíkur og Sparisjóði Svarfdæla. Kaupþing keypti þennan hlut af okkur ásamt hinum sparisjóðunum í desember s.l. fyrir verð sem gaf okku ágætis hagnað. Aftur á móti þótti einsýnt í árslok að áhættumat sjóðsins þyrfti að auka, sérstaklega með tilliti til aukningu útlána auk nokkura mála sem tillit þurfti að taka til. Því var framlag til afskriftareiknings aukið frá fyrra ári.Einnig var tekjuskattsskuldbinding tekjufærð vegna lækkunar skattprósentu. Þessar tilfæringar breyttu þó ekki þeirri rekstaráætlun sem við lögðum upp með í byrjun árs, og er afkoman af reglulegri starfsemi því í takt við væntingar okkar um rekstarniðustöðu.

Aftur á móti er ekki hægt að segja það sama um innlánin þ.e. sparnaðinn. Þrátt fyrir að væntingar hafi verið í upphafi um að eitthvað færi að glæðast á þeim markaði, brást það alveg. Hlutabréfamarkaðurinn sem bundnar voru svo miklar vonir við í upphafi brást, en sá sparnaður sem festist þar er alls ekki kominn til baka, og kemur trúlega ekki til baka fyrr en markaðsaðstæður þar breytast. Aftur á móti stækka lífeyrissjóðirnir sífellt vegna lögbundins sparnaðar launþega, eins og ég gat um í ræðu minni á síðasta aðalfundi. Þó hefur örlítið birt upp fyrir innlánsstofnanir í því tilliti, því viðbótarlífeyrissparnaður hefur orðið virkur, sem gerir það að vekum að launþegar hafa möguleika á að leggja allt að 4% launa inn á slíkan sparnað. Vonandi taka launþegar við sér og semja við sinn sparisjóð um að annast þennan sparnað, því eitt er víst að óvíða hafa fengist eins góðir vextir og í sparisjóðunum fyrir þennan sparnað á síðasta ári.

Það að innlán aukist ekki í takt við útlán verður til þess að fjármögnun útlána verður að fara fram á annan og dýrari hátt. Aðstæður til skuldabréfaútgáfu voru ekki hagstæðar á síðasta ári og var því útlánaaukningin að mestu leyti fjármögnuð á millibankamarkaði. Sá markaður var einnig mjög dýr,og um fjármögnun að ræða til mjög skamms tíma í senn. Vaxtamunur sem hlutfall af heildarfjármagni hefur farið minnkandi með ári hverju og er nú svo komið hjá okkur í Sparisjóðnum í Keflavík að hann er kominn niður í 3,82%. Minnkandi innlánsaukning á sinn þátt í þessu en einnig krónuskortur á markaðnum. Þetta er ákveðið áhyggjuefni þar sem þessi þróun kallar á aukningu á öðrum tekjum til þess að viðhalda viðunandi arðsemi sparisjóðsins.

Hvað vanskil úlána varðar þá voru þau ennþá í sögulegu lágmarki um áramótin, þrátt fyrir nokkur áföll sem ég gat um áðan. Menn kunna vafalaust að spyrja af hverju, miðað við þá lýsingu sem ég gaf fyrr á efnahagsástandinu á árinu. Að sjálfsögðu er nú beytt öðrum vinnubrögðum til að innheimta en áður, en ráðdeild er nú af allt öðrum toga en áður, og efnahgur betri á okkar markaðssvæði.

Ég hefi nú farið yfir nokkur grundvallaratriði hvað afkomu sparisjóðsins varðar, og mun nú snúa mér að því að skýra ársreikninginn Sparisjóðsins í Keflavík fyrir árið 2001 sem þið hafið þá þegar fengið í hendur.

Hagnaður fyrir óreglulega liði var 290,6 milljónir króna en að teknu tilliti til framlags í afskriftareiknings upp á kr. 160 milljónir króna, og reiknaðs tekjuskatts sem er tekjufærsla vegna lækkunar tekjuskattsprósentu tæplega 40 milljónir króna, og hagnaður ársins því 170,1 millj.kr.

Niðurstaða efnahagsreiknings í árslok var 16.938 millj og hækkaði um 16,2%. Eigið fé var 1.741,8 millj.kr. og hækkaði um 220 millj eða 14,5%. CAD hlutfallið þ.e. eiginfjárhlutfallið sbr.54.gr. laga um banka og sparisjóði var 11,35% en má lægst vera 8%.

Á bls 15 í ársskýrslunni er skýrsla stjórnar, og á bls. 16 er að finna áritun endurskoðenda án athugasemda. Á bls. 17 er rekstrarreikningurinn fyrir árið 2001

Vaxtatekjur á árinu voru 2.259 millj.kr.

Vaxtagjöld voru 1.657 millj kr.

Hreinar vaxtatekjur voru 602 millj kr. og höfðu hækkað um 100 millj kr.

Aðrar rekstrartekjur voru 325,6 millj.kr.

Hreinar rekstrartekjur voru 928 millj og höfðu hækkað um 103 millj. á milli ára.
Önnur rekstrargjöld voru 637 millj.kr. og höfðu hækkað um 78 millj. Þar af laun og launtengd gjöld um 34 millj. og annar almennur restrarkostnaður um 44 millj.

Hagnaður fyrir framlag til afskriftareiknings var 290,6 millj.
Framlag til afskriftareiknings 160 millj.
Hagnaður fyrir skatta og óreglulega liði 131 millj.
Reiknaður tekjuskattur kr. 40 millj.
Hagnaður ársins er því 170 millj króna

Á bls. 18 og 19 er efnahagsreikningur pr. 31/12 2001

Eignamegin er fyrst sjóður og bankainnstæður sem voru 600 millj.

Útlán voru 14,1 milljarðar .kr. og höfðu hækkað um 24,8%.

Markaðsverðbréf og eignarhlutir í félögum voru 1,9 milljarðar og höfðu lækkað um 148 millj.

Aðrar eigni voru 333 millj. og eignir alls 16.938.326.118

Lítum því næst á skuldir og eigið fé á næstu síðu.

Skuldir við lánastofnanir voru 2.144 millj. og höfðu hækkað um 1.295 millj. vegna aukinna útlána umfram innlán á árinu.

Innlán námu 8,9 milljörðum og höfðu aðeins hækkað um 6,9%

Lántaka þ.e. skuldabréfaútgáfa nam 3,0 milljörðum og hafði hækkað um 11,6%

Innlán og lántaka var 11,9 milljarðar og hafa því hækkað milli áranna um 8%


Aðrar skuldir voru 131 milljónir.

Reiknaðar skuldbindingar voru 417 millj. og hækka frá síðasta ári um 9 millj.

Víkjandi lán 579 millj.

Eigið fé 1.741 millj. og skuldir og eigið fé samtals 16.938.326.118

Gott fundarfólk.

Ég hef bæði hér að framan, og eins á síðasta aðalfundi vikið að framtíð sparisjóðanna og samstarfi þeirra. Það er ekki gert í neikvæðum tilgangi,heldur þvert á móti til að sýna fram á, hve mikilvægt þetta samstarf er fyrir okkur. Mörgum sparisjóðum hefur að mínu mati ekki tekist að aðlaga sig nýjum tímum og breyttu umhverfi. Bæði mér og öðrum hefur orðið tíðrætt um stöðugar breytingar, og kannske það mikið að sumum hefur fundist nóg um, og spurt hvort breytingar séu fyrst nú að eiga sér stað. Að sjálfsögðu hafa breytingar átt sér stað frá alda öðli, en samt held ég að á síðustu árum hafi þær gerst miklu hraðar en fyrr, og orðið mun meiri en áður. Þarna held ég að sparisjóðirnir margir hverjir hafi sofið á verðinum eða ekki haft þor eða getu, til að takast á við nýtt umhverfi, enda er framtíð margra sparisjóða sérstaklega á landsbyggðinni vægast sagt óljós.



Fortíðin hefur líka verið að þvælast fyrir mörgum sparisjóðum þó ekki sé ég að gera lítið úr henni. Heimspekingurinn George Santayana sagði “Þeir, sem ekki geta lagt fortíðina á minnið,eru dæmdir til að endurtaka hana” Sparisjóðirnir eiga langa og farsæla sögu að baki, og hefur traust fólks á þessar stofnanir verið mikið allt fram á þennan dag, því megum við ekki reyna að endurtaka fortíðina, heldur beyta kröftum okkar í átt til framtíðar, og þar með að halda áfram að þjóna þessu fólki sem treystir okkur enn á nútímalegan hátt, en hugsa með lotningu til baka. Fólkið í landinu fylgist vel með og því ástæðulaust að vanmeta það.

Ég vona að fátt af því sem ég hef sagt hér á undan eigi við Sparisjóðinn í Keflavík, en margt af því þykist ég hafa séð hjá öðrum sparisjóðum. Og ekki er ég úrkula vonar um að sparisjóðirnir nái að aðlaga sig nýjum tímum. En eitt vil ég samt segja, látum ekki þröngsýni né eiginhagsmuni villa okkur sýn við stefnumótun fyrir Sparisjóðinn í Keflavík. Við höfum skyldum að gegna við fólkið sem treystir okkur og byggðirnar hér allt í kring. Við stöndum alltaf á tímamótum, við þurfum sífellt að taka nýjar og nýjar ákvarðanir, megi þessi fundur sem og aðrir um ókomna framtíð bera gæfu til að skila sparisjóðnum inn í framtíðina til komandi kynslóða.

Ég vil að lokum þakka öllu starfsfólki Sparisjóðsins fyrir góð störf og ánægjulegt samstarf. Einnig vil ég þakka stjórn Sparisjóðsins fyrir gott samstarf og góðan stuðning. Að svo mæltu legg ég ársreikning Sparisjóðsins fyrir starfsárið 2001 fram til staðfestingar.













Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024