Mesta skjálftavirknin á Krýsuvíkursvæðinu
Rúmlega sjö hundruð jarðskjálftar mældust með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í janúar. Er það nokkuð minni virkni en undanfarna mánuði og þarf að fara aftur til mars 2012 til að finna svipaðan fjölda skjálfta.
Greint er frá þessu á vefsvæði Veðurstofu Íslands. Þar segir að á Reykjaneshrygg hafi mælst 14 jarðskjálftar. Mesta virknin var við Geirfuglasker, en þar varð smáhrina níu skjálfta 3. janúar, allir í kringum tvö stig.
Á Reykjanesskaga var mesta skjálftavirknin á Krýsuvíkursvæðinu sem endranær. Þar mældist á fjórða tug skjálfta. Stærsti skjálftinn, 25. janúar kl. 00:41, var um þrjú stig með upptök við Trölladyngju (um fjóra kílómetra ANA af Keili). Þrír eftirskjálftar mældust. Hann fannst vel í Hafnarfirði og víða á höfuðborgarsvæðinu. Nokkrir skjálftar mældust í nágrenni við Grindavík, stærstu um 1,5 stig. Norðan við Bláfjallaskála mældust tveir smáskjálftar, um og innan við einn að stærð.