Mesta fjölgun ferðamanna á Suðurnesjum
- Suðurnesin í hópi svæða á Norðurlöndum sem spáð er hvað mestum vexti
Suðurnesin tróna í efsta sæti svæða á Norðurlöndunum þegar skoðuð er aukning í fjölda ferðamanna frá 2008 til 2014. Þar eru tækifæri til vaxtar hvað mest á landinu að mati Nordregio, norrænnar rannsóknarstofnunar sem gefur reglulega út skýrslu um stöðu norræna svæða (State of the Nordic Region). Skýrslunni er ætlað að auðvelda vinnu við stefnumótun og greiningu á ólíkum þáttum yfir tíma.
Þetta kom fram í máli Hjördísar Rutar Sigurjónsdóttur, sérfræðings hjá Nordregio, á haustfundi Heklunnar, atvinnuþróunarfélags Suðurnesja sem haldinn var í Hljómahöll þann 27. október síðastliðinn. Hún segir stöðu Suðurnesja svo sannarlega hafa breyst frá síðustu skýrslu sem kom út árið 2013. Næsta skýrsla er áætluð árið 2018.
„Árið 2012 var atvinnuleysi mikið á Suðurnesjum og komst svæðið á blað sem eitt af þeim verst stöddu á Norðurlöndunum með yfir 10 prósent atvinnuleysi. Það telst nokkuð merkileg staða vegna nálægðar Suðurnesja við höfuðborgarsvæðið en bæði Suðurnesin og höfuðborgarsvæðið fóru nokkuð illa út úr efnahagshruninu og höfðu ekki náð sér almennilega á strik á þessum tímapunkti.“
Að sögn Hjördísar virðist það versta að baki en atvinnuleysi á Suðurnesjum mældist 3,1 prósent í febrúar 2016 og segir hún Suðurnes, sem þegar sé orðið nokkuð stórt þéttbýlissvæði, greinilegt vaxtarsvæði.
„Aldurssamsetning hér er góð og ekki endilega þörf á að draga að fólk eins og mörg byggðarlög þurfa að einbeita sér að. Samfélagið er vel til þess fallið að viðhalda sér og gott framboð á húsnæði er til staðar, bæði vegna brotthvarfs varnarliðsins og eins vegna mikillar uppbyggingar fyrir hrun. Svæðið er á margan hátt hentugt fyrir fjölskyldufólk og farið er að bera á skorti á vinnuafli sem er viðsnúningur frá því sem var.“
Greining svæðanna er gerð út frá nýjum svæðisbundnum flokkunarstuðli en hann nýtist til að skilja frammistöðu þeirra 74 stjórnsýslusvæða sem Norðurlöndin samanstanda af. Borin eru kennsl á svæði með mestu og minnstu vaxtarmöguleikana til að koma auga á tækifæri og hindranir sem framtíðin kann að bera í skauti sér. Skoðuð er íbúaþróun, vinnumarkaður, menntun, efnahagur, þróun og aðgangur að innviðum og þjónustu.
Suðurnesin og höfuðborgarsvæðið eru í hópi þeirra svæða sem spáð er hvað mestum framtíðarmöguleikum á Norðurlöndunum en þar ræður þéttleiki byggðar, fólksflutningar, aldurssamsetning og hlutfall kvenna.
„Það eru tvö íslensk svæði sem komast inn á topp tuttugu listann þar sem búið er að raða niður þeim svæðum sem hafa hvað mesta framtíðarmöguleika. Höfuðborgarsvæðið er í tíunda sæti en hefur lækkað sig um tvö sæti frá síðustu skýrslu og svo eru það Suðurnesin sem náðu að flytja sig upp um þrjú svæði og eru komin í átjánda sæti listans. Þegar flokkað er eftir tegundum svæða eru Suðurnesin í fjórða sæti þegar horft til svæða sem flokkast sem dreifbýli og í þriðja sæti þegar svæði sem flokkast til norðurslóða eru skoðuð.“
Bæði Keflavíkurflugvöllur og Bláa lónið eiga stóran þátt í þeirri aukningu sem hefur orðið á fjölda ferðamanna á Suðurnesjum að mati Nordregio. Aukningin á öðrum svæðum á Íslandi fór yfir 100 prósent nema á Vesturlandi þar sem hún var 62 prósent. Næst á eftir Íslandi kemur Etelä-Karjala í Finnlandi með 35 prósent aukningu.
Þegar staða Suðurnesja er skoðuð hvað varðar menntun gæti staðan að sögn Hjördísar verið betri. „Þegar mælt er hlutfall þeirra sem eru með menntunarstig frá 5-8 samkvæmt alþjóðlegum menntunarstaðli (ISCED) hafa innan við 20 prósent íbúa náð því menntastigi. Átt er við þá sem lokið hafa menntun sem leiðir til starfsréttinda, svo sem iðn- og tæknimenntun, þá sem hafa lokið BA eða BS gráðu í háskóla, eru með mastersgráðu eða doktorsgráðu. Í Reykjanesbæ er hlutfallið þó örlítið hærra eða á milli 20 og 25 prósent.
En hver er skýringin á þessu lága menntunarstigi?
Hjördís segir að hröð þéttbýlismyndun árin fyrir hrun geti hugsanlega hafa haft áhrif á menntunarstigið.
„Einhverjir hafa fluttst hingað í þeim tilgangi að afla sér menntunar en hafa ekki enn náð því menntastigi sem hér er mælt. Hér var mikið byggt og húsnæðisverð var lægra en í Reykjavík. Ekki er ólíklegt að einhverjir hafi komið frá minni stöðum á landsbyggðinni, hugsanlega nokkur hópur sem hafði áður unnið við frumframleiðslu sem ekki krefst sérmenntunar. Þetta eru auðvitað bara vangaveltur í þeirri viðleitni að finna skýringar. En það er fleira en samkeppnisstaða fólks sem kemur upp í hugann þegar fólk velur sér nýjan stað til að búa á eins og viljinn til að hafa stökkið á milli búsetustaða minna. Vera í minna byggðalagi, vera nær sjónum, náttúrunni, þar sem má finna marga kosti smærri byggðarlaga. Góðir grunnskólar geta líka haft sitt að segja. Á Íslandi er líka mjög sveigjanlegur vinnumarkaður sem veldur því að hvati til aukinnar menntunar er stundum lítill.“
Hvar telur þú möguleika Suðurnesja búa?
„Hér er meira framboð á húsnæði en víða og húsnæðisskortur þarf ekki að hamla eða tefja uppbyggingu eins og í sumum byggðarlögum. Aukin áhersla á menntun og sérhæfingu getur aukið samkeppnishæfni Suðurnesja og styrkt enn frekar uppgang fleiri atvinnugreina. Þá er starfsemi Keilis og Fisktækniskólans í Grindavík mikilvæg svæðinu en Keilir hefur útskrifað yfir 2400 einstaklinga á þeim níu árum sem hann hefur verið starfandi.
Það sem Suðurnesin búa yfir og er sérstakt er þessi ríka hefð popptónlistar sem byggja má á. Það má spyrja sig hvort ekki væri tilvalið að efla menntainnviði á vettvangi lista og menningar?“
Þá nefnir Hjördís auðlindir jarðvarma sem sé meira en uppspretta orku eins og fyrirtækin á svæðinu hafi sýnt.
„Þar má nefna Metanól framleiðslu, sameindatækni, heilsulindir, þörungaræktun og vinnslu, fiskeldi, fiskþurrkun en jarðvarmi er meðal annars notaður við framleiðslu á prótíni, lýsi, ensímum, sjávargróðri og við þörungarækt. Um er að ræða framleiðslu sem býr til verðmæt störf til framtíðar – og undirstrikar þörfina fyrir fólk með hærra menntastig.“
Grænn iðnaður býr einnig yfir miklum möguleikum að mati Hjördísar. Raunveruleg eftirspurn sé eftir afurðum og viðskiptamöguleikar þekktir. Hins vegar þurfi til jákvætt hugarfar innan stjórnsýslunnar og þverfaglega nálgun sem feli í sér þátttöku bæði einkageirans og þess opinbera.
„Þó að þessi græni hagvöxtur og viðmið tröllríði umræðunni um ábyrga og sjálfbæra viðskiptaþróun er mikilvægt að missa ekki trúverðugleikann um að framleiðslan sé sjálfbær og það er varasamt að grænþvo eitthvað sem stendur ekki undir því. Á meðan ýmis konar nýsköpun á svæðinu er innan þessa ramma þá ætti framtíðin að vera björt.“