Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Merkur áfangi í samgöngumálum
Sunnudagur 19. október 2008 kl. 18:01

Merkur áfangi í samgöngumálum



Kristján R. Möller, samgönguráðherra, opnaði í dag seinni áfanga að tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hafnarfirði til Reykjanesbæjar. Var þessum merka áfanga í samgöngumálum landsmanna fagnað með formlegum hætti.

Ásamt samgönguráðherra klipptu á borðann þeir Steinþór Jónsson, formaður áhugahóps um örugga Reykjanesbraut og Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri. Því næst ók hópferðabíll frá SBK inn á nýju brautina, fyrstur bíla. Undir stýri var Valgeir Sighvatsson, en hann ók einnig fyrstur inn á fyrri hluta tvöföldunarinnar árið 2004.

Suðurnesjamenn höfðu lengi talað fyrir nauðsyn þess að tvöfalda Reykjanesbrautina en ekki hlotið hljómgrunn fyrr en þeir lokuðu brautinni dag einn fyrir átta árum til að vekja athygli á málstað sínum. Í kjölfarið var haldinn eftirminnilegur þúsund manna borgarafundur í Stapa þar sem ástandi brautarinnar var mótmælt. Áhugahópur um örugga Reykjanesbraut varð til og hreyfing komst á málin.

Fyrri áfangi tvöföldunarinnar var vígður árið 2004. Framkvæmdir við seinni hlutann gengu ekki þrautalaust fyrir sig því verkið þurfti í endurútboð eftir að Jarðvélar sögðu sig frá því vegna fjárhagsvandræða. Eftir það kom Ístak að verkinu, sem gengið hefur afar vel og lauk formlega í dag, mánuði á undan áætlun.

Mörg hundruð manns fögnuðu þessum áfanga í kaffisamsæti sem haldið var í sal FS í dag eftir opnunarathöfnina. Þar fengu fulltrúar vest- og sunnlendinga afhentar skóflur til að halda ráðherra við efnið við samgöngubætur í þessum landshlutum.
Fulltrúar ahugahópsins um örugga Reykjanesbraut fengu við þetta sama tækifæri afhenta skóflu frá Sturlu Böðvarssyni, fyrrverandi samgönguráðherra, en skófluna höfðu hinir fyrrnefndu afhent honum í ársbyrjun 2001.

Svipmyndir frá þessum viðburði má sjá á ljósmyndavef Víkurfrétta hér á vefnum.

Mynd/Ellert Grétarsson: Samgönguráðherra klippti á borðann ásamt Steinþóri Jónssyni og Hreini Haraldssyni.



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024