Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 6. ágúst 2002 kl. 14:22

"Mér krossbrá"- sagði Hjálmar Árnason um skattinn

Athygli vakti þegar fyrstu skattatölur voru birtar að Hjálmar Árnason, alþingismaður, virtist orðinn með tekjuhæstu þingmönnum landsins. Í samtali við Vikurfréttir þar sem Hjálmar var spurður hvort tekjur þingmanna hefðu hækkað svo mikið á síðasta ári sagðist hann hafa orðið mjög hissa þegar hann heyrði þetta enda hafi hann ekki tekið eftir slíkri launahækkun í launaumslaginu sínu.

“Mér krossbrá þegar ég heyrði á Stöð 2 um þessar meintu tekjur mínar og Valgerður, kona mín spurði strax í hvað peningarnir hefðu farið," sagði Hjálmar. “Ekki hafði ég tekið eftir því að hækkað hefði í launaumslaginu og ekki hafði ég unnið í happdrætti svo eitthvað hlaut að vera að. Minn ágæti vinur, Sævar Reynisson, annast skattaframtalið fyrir mig og var hann sjálfur jafn hissa og ég. Skýringin er sú að blessaður skattstjórinn áætlaði á mig tekjur. Reyndar skil ég ekki forsendur þar á bak við því laun þingmanna eru öllum kunn og skattstjóri á að vita hverjar þær eru. Það sem í raun gerðist var að Sævar sendi gögnin mín og annarra á réttum tíma með tölvu - eins og skattstjóri hvetur til. Gögnin munu hins vegar ekki hafa komið fram í tölvu skattstjóra og því er gripið til áætlunar. Ég er ekki einn um að hafa lent í þessum tæknilegu vandræðum en þau koma sér e.t.v. nokkuð illa því um mánaðamótin er allt rifið úr launaumslagi okkar sem lentum í þessu. Einhvern tíma tekur að koma leiðréttingi í gegnum kerfið. Mánaðarlaun þingmanns eru langt frá því sem áætlað var og hygg ég að ég sé svona í meðallagi hvað varðar tekjur þingmanna. Ég tel enga ástæðu til að gera mál úr þessu - tæknin bara klikkaði hjá skattstjóra en hlýtur að verða kippt í liðinn. Það jákvæða við þetta er að ef framtal berst ekki skattstjóra áætlar hann ríflega á fólk sem hlýtur að hvetja fólk til að skila framtölum sínum réttum á réttum tíma."

Þess má geta að Dagur Ingimundarson úr Sandgerði var eini Suðurnesjamaðurinn á topp tíu lista yfir þá sem greiddu hæstu opinberu gjöldin í Reykjanesumdæmi fyrir árið 2002. Dagur var í fimmta sæti á listanum en hann greiddi rúmar 29 milljónir af tekjum sínum til hins opinbera. Dagur er fyrrum útgerðarmaður á Arneyrinni en hann og félagi hans, Óskar Þórhallsson, seldu skipið á árinu.

Alls námu gjöld sem lögð voru á einstaklinga um 38 milljarðar króna í Reykjanesumdæmi og er það rúmlega 5,5 milljarða króna hækkun frá síðasta ári.
Þess má geta að Dagur Ingimundarson greiddi um 83 milljónum krónum minna til hins opinbera en sá sem var efstur á lista Reykjanesumdæmis en það var Jóhannes Tómasson úr Kópavogi en hann greiddi rúmar 112 milljónir í opinber gjöld.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024