Menntun er leiðin út úr fátækt
- Velferðarsjóður Suðurnesja styður við efnalitlar fjölskyldur og einstaklinga
„Það skiptir okkur miklu máli að öll börn hafi jafnan aðgang að menntun og tómstundum,“ segir Þórunn Þórisdóttir, rekstrarstjóri Keflavíkurkirkju. Hún heldur utan um Velferðarsjóð Suðurnesja. Meðal verkefna sjóðsins er að styðja við ungmenni sem ekki eiga möguleika á að fara í framhaldsskóla vegna fátæktar. Fyrir þá unglinga greiðir sjóðurinn skólagjöld, námsgögn og skólamat. „Fátækt erfist, þar sem þeir einstaklingar sem alast upp við fátækt hafa ekki sömu tækifæri til menntunar og tómstunda eins og önnur börn. Menntun er besta leiðin út úr fátækt. Það eru dæmi um að þrír ættliðir sömu fjölskyldu leiti til okkar. Þau ungmenni sem búa við fátækt hafa oft engar væntingar til framtíðarinnar og vita jafnvel ekki hvaða möguleika þau hafa. Það er alltaf ánægjulegt þegar þessir einstaklingar útskrifast úr framhaldsskóla og stefna á meiri menntun.“
Tæplega 150 heimili leituðu til sjóðsins á síðasta ári. Fyrir jólin fengu 111 heimili úthlutun. Fólk leggur fram gögn um tekjur og mánaðarleg útgjöld, séu þær undir viðmiðunarmörkum miðað við fjölskyldustærð er því úthlutað úr sjóðnum. Að sögn Þórunnar er almenna reglan sú að fjölskyldur fái úthlutað úttektarkorti í matvöruverslun þrisvar sinnum á ári og sérstaka úthlutun um jólin að auki. Einstaklingar fá að jafnaði úthlutun einu sinni á ári en á því eru undantekningar. Sjóðurinn aðstoðar fjölskyldur sem eru undir viðmiðunarmörkum einnig við að greiða fyrir eina tómstund fyrir hvert barn og skólamat. Í dag greiðir sjóðurinn skólamáltíðir fyrir 250.000 krónur á mánuði. Þórunn segir flesta leita til sjóðsins í desember. „Fólk getur þá bjargað sér hina mánuðina en leitar til okkar fyrir jólin.“ Hún kveðst finna fyrir því að efnahagsástandið sé að batna. „Það er mun minna atvinnuleysi og færri sem fá fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum. Það er þó ákveðinn hópur sem situr eftir; aldraðir og öryrkjar. Það þarf að gera meira fyrir þá hópa. Einstaklingar fá rúmar 170.000 krónur á mánuði og greiða af því 120.000 krónur í húsaleigu, auk þess að þurfa meira á læknisþjónustu og lyfjum að halda en aðrir.“ Fólk á vinnumarkaði með lægstu launin er einnig í hópi umsækjenda, sérstaklega einstæðir foreldrar.
Starfsmenn og sjálfboðaliðar Keflavíkurkirkju fóru í októberbyrjun 2008 í vinnuferð í Skálholt og var í þeirri ferð ákveðið að stofna Velferðarsjóð Suðurnesja og fá aðra til samstarfs. Velferðarsjóður Suðurnesja er sameignarsjóður kirkna á Suðurnesjum, stéttarfélaga og Rauða krossins á Suðurnesjum. Hugmyndin með stofnun hans var að sinna betur þeim efnaminnstu. Daginn eftir heimkomu úr Skálholti hrundi efnahagur landsins og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, bað Guð um að blessa Ísland. Frá októberbyrjun til desemberloka 2008 söfnuðust 20 milljónir í sjóðinn. Þórunn segir að einstaklingar, starfsmannafélög, góðgerðafélög, stéttarfélög, fyrirtæki og stofnanir standi vörð um sjóðinn og fyrir það eru þau sem að honum standa afskaplega þakklát því að án þessara framlaga væri sjóðurinn ekki til.
Sjóðurinn starfar eftir sömu verklagsreglum og hjálparstarf kirkjunnar og segir Þórunn það hafa virkað vel. Þar sé mikil reynsla sem sjóðurinn nýtur góðs af. „Með því að hafa ákveðið verklag og verklagsreglur þá sitja allir við sama borð og þá getum við gert jafn vel við alla.“ Að lokum vill Þórunn þakka öllum þeim sem hafa á liðnum árum lagt sjóðnum lið.