Menntaskóla Grindavíkur seinkar um ár - tekur til starfa haustið 2010
Fulltrúar Grindavíkurbæjar ásamt verkefnisstjóra Menntaskóla Grindavíkur funduðu með Katrínu Jakobsdóttur, menntamálaráðherra, og starfsmönnum ráðuneytsins, á dögunum um fyrirhugaðan menntaskóla.
Grindavíkurbær hefur unnið að því frá í fyrrahaust að Menntaskóli Grindavíkur taki til starfa næsta haust. Eftir þennan fund er hins vegar ljóst að svo verður ekki og því er stefnt að því að Menntaskóli Grindavíkur taki til starfa haustið 2010.
,,Menntamálaráðherra tók okkur mjög vel og það var greinilegur vilji af hálfu Katrínar að leggja okkur lið. Hins vegar var því hafnað að skólinn byrji í haust, aðallega vegna tímaskorts. Þetta voru vonbrigði sérstaklega í ljósi þess að Grindavíkurbær var tilbúinn að teygja sig ansi langt svo af þessu gæti orðið. Hins vegar standa vonir til að skólinn taki til starfa haustið 2010," segir Eyjólfur Bragason, verkefnisstjóri Grindavíkurbæjar vegna menntaskólans.
Eyjólfur segir að ráðherraskipuð nefnd um skólann með fulltrúum ráðuneytisins og Grindavíkurbæjar eigi að skila af sér fyrir 1. júní nk. og því verði áfram unnið að þessu mikilvæga hagsmunamáli fyrir Grindavíkurbæ af fullum krafti.
www.grindavik.is greinir frá.