Menntamálaráðherra undirritar samning við Keili
Þó þriggja ára afmæli kunni ekki að teljast til stórviðburða þá taldi starfsfólk Keilis samt ástæðu til að efna til afmælishátíðar í hátíðarsal skólans í gær. Þrátt fyrir stuttan starfstíma hefur ótrúlega margt gerst í starfi Keilis á þessum þremur árum. Nýjar námsbrautir í íslesnku skólakerfi orðið til, fimm glænýjar flugvélar, með fullkomnari rannsóknaraðstöðu og ekki síst rúmlega 600 nemendur.
Árni Sigfússon, stjórnarformaður Keilis, rakti tilurð að stofnun hans. Forseti Íslands lýsti áhrifum Keilis á þróunina frá herstöð til stærsta skólabæjar á landinu. Þá skrifaði Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, undir nýjan samning um starfssemi Keilis.
Hjálmar Árnason. framkvæmdastjóri Keilis greindi frá því að Keilir væri fyrstur skóla á Íslandi til að taka upp svonefnda Accociate-gráðu við útskrift. Um er að ræða stystu gráðu á háskólastigi (1-2) ár – ekki síst hagnýtt nám. Þá upplýsti Hjálmar að frá og með næsta hausti yrði Keilir kominn undir eitt þak með flutningi á bóklegri starfssemi sinni í eigið húnsæði á Ásbrú.
Rúnar Unnþórsson, forstöðumaður Orku- og tækniskóla Keilis, greindi frá stofnun Verkefna- og nýsköpunarsjóðs Keilis. Hann er ætlaður nemendum sem geta sótt um styrki frá fyrirtækjum til hagnýtra verkefna. Meðal fyrstu verkefna má nefna hönnun og smíði tækis til að færa flugvélar, jarðhitatengd verkefni og aflmælingar.
Meðal nýrra námsbrauta í undirbúningi má nefna TROMPIÐ, námsbraut fyrir frumkvöðla, verkefnisstjórn, atburðastjórn; Fíkniráðgjöf og forvarnir, framhaldsnám fyrir vélstjóra og tæknifólk vegna starfa í orkuverum.
Um 40 börn frá leikskólanum Völlum á Ásbrú færðu nágranna sínum, Keili, fallega gjöf: Sjálfan afmælissönginn við góðar undirtektir allra viðstaddra.
Mynd: Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Hjálmar Árnason framkvæmdastjóri Keilis undirrita samning um starfsemi Keilis. VF-mynd: Ellert Grétarsson