Mennta- og menningarmálaráðherra heimsótti Grindavík
Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í Grindavík s.l. föstudag á vegum mennta- og menningarmálaráðherra. Katrín Jakobsdóttir ráðherra heimsótti fyrst grunnskólann í Grindavík og fór svo á leikskólana. Að endingu var hátíð í Kvikunni.
Ráðherranum var kynnt starfsemi grunnskólans. Róbert Ragnarsson bæjarstjóri, skólastjórnendur og ýmsir fleiri tóku á móti ráðherranum og kynntu fyrir henni m.a. þá uppbyggingu sem fram undan er í skólanum en þar á að byggja sem kunnugt er tónlistarskóla og bókasafn við skólann. Þá var vel tekið á móti ráðherranum á leikskólunum Laut og Króki.
Katrín skoðaði svo saltfisksýninguna í Kvikunni og í kjölfarið var svo hátíð í salnum þar sem m.a. var upplestur og tónlistaratriði. Þar sungu Rebekka Rós Reynisdóttir og Fanný Þórsdóttir við undirspil Renötu Ivan. Tveir nemendur grunnskólans voru með upplestur, þau Margrét Rut Reynisdóttir og Sigurður Bjartur Hallsson en bæði unnu þau Stóru upplestrarkeppnina á sínum tíma.