Menningarsetur tekur á sig mynd
Gamla íbúðarhúsið að Útskálum er óðum að taka á sig upprunalegt útlit. Bragi Guðmundsson, byggingaverktaki í Garði, og hans menn hafa í vetur unnið að endurbótum á ytra útliti hússins og fært það til upprunalegs útlits. Nú þegar vinnupallar hafa verið rifnir utan af húsinu hefur þessi glæsilega bygging komið í ljós.
Á vefnum Útskálar.is segir: Útskálasókn, sveitarfélagið Garður og Sparisjóðurinn í Keflavík hafa myndað með sér félag sem hefur að markmiði að endurbyggja Útskálahúsið frá grunni sem sérstakt menningar- og fræðasetur. Þann 9. júlí 2004 var Menningarsetrið að Útskálum ehf. stofnað. Tilgangur félagsins er að endurbyggja húsið og byggja við það þjónustuhús með veitinga- og snyrtiaðstöðu. Almennur vilji er í söfnuðinum til að endurreisa húsið sem menningar- og fræðasetur þar sem lifandi kirkju- og menningartengd ferðaþjónusta verður rekin.
Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson - [email protected]