Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Menningarsetrið að Útskálum gjaldþrota
Föstudagur 23. nóvember 2012 kl. 07:00

Menningarsetrið að Útskálum gjaldþrota

Menningarsetrið að Útskálum hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Menningarsetrið að Útskálum stóð fyrir endurbyggingu gamla prestsetursins. Útskálaprestssetrið er eitt elsta prestssetur landsins. Húsið var byggt árið 1889, virðulegt og glæsilegt, en hefur á síðari árum og áratugum legið undir skemmdum. Hér er um að ræða eitt mesta höfuðból af prestssetrum þessa lands og hornsteinn í sögu Suðurnesja. Gamla prestsetrið hefur verið klárað að utan en  er óklárt að innan.

Samkvæmt upplýsingum frá Jóni Hjálmarssyni, formanni stjórnar Menningarseturs að Útskálum voru skuldir félagsins lán sem Sparisjóðurinn í Keflavík veitti félaginu árið 2007. Upphafleg lánsfjárhæð var 40 milljónir króna en er mun hærra í dag. Jón segir að eftir hrun hafi ekki verið mögulegt fyrir félagið að standa skil á láninu. Þá hafi Útskálasókn einnig lánað eitthvað fé til framkvæmdanna.

Jón segist ekki vita hvaða áhrif gjaldþrotið hefur á áframhaldandi uppbyggingu á Útskálum. Hann telur þó æskilegt að Garðmenn eignist gamla prestsetrið með einhverjum hætti. Hann segir þó ljóst að það sé ekki auðvelt að ná í fjármagn til þess og í áframhaldandi uppbyggingu á staðnum.

Mikið rask hefur verið unnið að Útskálum á síðustu árum. Gamla prestsetrið var orðið illa farið, enda bygging frá árinu 1889. Það er nú fullklárað að utan en innandyra er mikil vinna eftir en þar stóð til að setja upp mikla margmiðlunarsýningu um prestsetur á Íslandi.
Umhverfi prestsetursins er stórt og mikið sár í dag. Þar hafa verið steyptir sökklar að safnaðarheimili sem til stóð að reisa við Útskála. Þar eru einnig sökklar hótelbyggingar. Það verkefni fór einnig í þrot.

Fjölmargir aðilar komu að uppbyggingu menningarseturs að Útskálum. Vefur verkefnisins er ennþá aðgengilegur á netinu. Þar er birtur listi yfir þá aðila sem styrkt hafa Menningarsetrið að Útskálum ehf. Þar eru m.a. nefndir eftirtaldir aðilar:

Samband Íslenskra Sparisjóða, Samband Sveitarfélaga á Suðurnesjum, Fjárlaganefnd Alþingis
Sparisjóðurinn í Keflavík, Sveitarfélagið Garður, Byggðastofnun, Menntamálaráðuneytið, Samkaup, Impra nýsköpunarsjóður, Verslunarmannafélag Suðurnesja, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis, Frímúrarastúkan Sindri, Kristnihátíðarsjóður, Hitaveita Suðurnesja
Pokasjóður, Fjármálaráðuneytið, Menningarsjóður SPRON, Lex ehf., Stapaprent, Fermingarárgangur frá Útskálakirkju árið 1957, Kiwanisklúbburinn Hof, Einstaklingar sem hétu á sr. Sigurð B. Sívertsen vegna landamerkjadeilu, Innri Njarðvíkursöfnuður, Mótvægissjóður ríkisstjórnarinnar á sviði Ferðamála ,Menningarsjóður Suðurnesja og Manngildissjóður Reykjanesbæjar.



 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024