Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Menning og álver
Fimmtudagur 31. mars 2011 kl. 18:56

Menning og álver



Við fjölluðum um fjölbreytta menningarstarfsemi í Reykjanesbæ í síðustu viku en við það er að bæta að íþróttastarfsemi er gríðarlega sterk og hefur ekki látið undan í kreppunni. En það eru ekki bara íbúar Reykjanesbæjar sem eru að gera það gott í menningu og íþróttum.


Nágrannar þeirra í Garði og Grindavík hafa lítið gefið þeim eftir. Garðmenn voru fyrr í vetur með mjög öfluga dagskrá sem hét „Ferskir vindar“ og nú 2. apríl hefst menningarvika í Grindavík. Það er ekki bara „fiskur undir steini“ í þessu mikla sjávarplássi. Þar hafa íþróttir og menning sótt mikið á undanfarin ár og dagskráin í þessari menningarviku er mjög fjölbreytt. Ekki eru bara margir spennandi menningarviðburðir heldur er hægt að fara í heita pottinn með bæjarfulltrúum alla næstu viku.

Grindvíkingar eru duglegir og framtakssamir í mörgum málum. Ætíð hefur verið næg atvinna í bæjarfélaginu og stefnt er að opnun menntaskóla. Þeir halda úti virkri vefsíðu um málefni bæjarins og gefa út Járngerði, fréttablað þrisvar á ári. Það er ástæða til að hrósa Grindvíkingum fyrir góðan gang á mörgum sviðum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Landsvirkjun og álverið

Björgvin G. Sigurðsson, fyrsti þingmaður Suðurkjördæmis skrifaði grein á vf.is þar sem hann hvatti Landsvirkjun til að koma að orkuöflun í álverinu í Helguvík með yfirtöku virkjana Orkuveitu Reykjavíkur sem á við mikla fjárhagserfiðleika að etja.
„Landsvirkjun hefur alla burði til að ganga inn í þessi verkefni og myndi það liðka fyrir orkusölu til álvers í Helguvík og líkast til koma í veg fyrir að þau áform yrðu að engu. Áfram er reiknað með því að HS Orka skaffi meirihluta orkunnar til álvers í Helguvík. Þessháttar aðkoma Landsvirkjunar að verkefninu, ásamt því að leggja umframorku í kerfi sínu á næstu árum til verkefnisins, gæti skipt sköpum um framhald málsins.

Það er mjög brýnt nú þegar mikið liggur við, að koma öflugum framkvæmdum af stað vegna atvinnustigsins og hagvaxtarauka, að Landsvirkjun leiti allra leiða til þess að koma að Helguvíkurverkefninu. Það gæti hoggið á Helguvíkurhnútinn og tryggt framgang verkefnisins,“ segir Björgvin sem flutti sams konar mál á Alþingi í upphafi vikunnar. Undir orð hans tók Kristján Möller, formaður iðnaðarnefndar en hann sagði að tvö þúsund störf yrðu til innan fimm mánaða ef Helguvíkurframkvæmdirnar kæmust í gang. Það væri ekki svo lítið þegar haft væri í huga að fimmtán þúsund manns gengju um atvinnulausir. Það væri eitt mesta þjóðfélagsmeinið um þessar mundir sem kostaði um þrjátíu milljarða króna.


Ekki er hægt að greina annað en að stuðningur sé við álversverkefnið innan vébanda Samfylkingarinnar en Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra hefur alltaf talað fyrir álveri. Hins vegar höfðu forráðamenn Reykjanesbæjar og Garðs áhyggjur af því þegar forsætisráðherra tilgreindi nýlega ekki álverið í þeim verkefnum sem horft væri til á næstunni.
Nú er bara spurning hvort Samfylkingin hafi vilja og þrek til að fylgja málum eftir og tryggja álversframkvæmdum framgang eða hvort „fúlir á móti“ Vinstri grænir nái að tefja málið áfram.