Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 14. september 2000 kl. 09:54

Menning er nauðsynlegur þáttur í lífi sérhvers manns

Valgerður Guðmundsdóttir tók við stöðu menningarfulltrúa Reykjanesbæjar í byrjun þessa mánaðar. Silja Dögg Gunnarsdóttir hitti hana á kaffihúsi á dögunum og spurði hana spjörunum úr varðandi bakgrunn hennar og hverjar hugmyndir hennar væru um framtíð menningar á Suðurnesjum og síðast en ekki síst, hvað menning væri. Prýðilegt samfélag Valgerður er fædd og uppalin í Hafnarfirði en hefur búið á Suðurnesjum síðan 1977. Tilviljanir réðu því að hún og Hjálmar Árnason, eiginmaður hennar, ílengdust á Suðurnesjum. Þau komu fyrst til að kenna í Sandgerði en Valgerður fór síðan að kenna í Holtaskóla, þar sem hún hefur starfað með hléum allar götur síðan. „Við bjuggum í Hafnarfirði í þrjú ár, en þá stundaði ég nám við Kennaraháskóla Íslands. Hjálmar fékk síðan aðstoðarskólameistarastöðu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og þá komum við aftur hingað suðureftir. Við ætluðum að vera hér í fimm ár, en árin eru nú orðin fimmtán“, segir Valgerður brosandi og heldur síðan áfram. „Ástæðan er sú að okkur hefur líkað vel að búa hér. Hér er gott að vera, bæði fyrir fullorðna og börn, það er stutt í allt og samfélagið prýðilegt í alla staði.“ Skemmtilegt að kenna unglingum Valgerður dvaldi í eitt ár í Kanada á meðan Hjálmar stundaði þar framhaldsnám. Hún kenndi í F.S. í einn vetur og tók þátt í að koma Skólaselinu á laggirnar, en þar var hún í fjögur ár. „Það er svo skrítið en það er alltaf eitthvað sem dregur mig aftur í unglingakennsluna enda er þetta óskaplega skemmtilegt starf“, segir Valgerður og brosir. „Ég er alltaf jafn sorgmædd á hverju vori þegar ég útskrifa 10. bekkingana. Ég hugsa þá með mér „ætli ég fái nokkurn tíma svona skemmtilegan hóp aftur. Og það undarlega gerist alltaf, næsta haust fæ ég annan jafn skemmtilegan hóp.“ Sameina vinnu og áhugamál Valgerður segist lengi hafa velt fyrir sér hvort hún ætti að sækja um stöðu menningarfulltrúa þegar starfið var auglýst, en að sögn hefur hún alla tíð hafa verið mikil áhugamanneskja um allt sem viðkemur menningu. „Þetta var svo spennandi og ég hugsaði með mér að ef ég reyndi ekki einu sinni, þá yrði ég fúl í allan vetur yfir að hafa ekki reynt. Þarna hafði ég tækifæri á að sameina starf og áhugamál og ég gat ekki sleppt þessu“, segir Valgerður með ákefð. Hún hefur alltaf lesið mikið og undanfarin tvö ár hefur Valgerður verið í píanónámi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. „Ég hef alltaf reynt að sækja tónleika hér á svæðinu og ég hef lengi verið nátengd tónlistarskólanum á einn eða annan hátt. Ég fór sjálf í myndlistarskóla á sínum tíma þannig að myndlist hefur líka höfðað til mín, þó ég sé ekki gerandi á því sviði“, segir Valgerður og bætir við að hið sama gildi um leiklistina. Öflugri kynningarstarfsemi Hlutverk menningarfulltrúa, er margþætt, að sögn Valgerðar. Í stuttu máli má segja að starfið felist í að kynna og styrkja menningarlíf í Reykjanesbæ og samræma tímasetningar á uppákomum. Valgerður segir að hér sé mikil gróska í menningarlífinu en oft fara menningarviðburðir fyrir ofan garð og neðan hjá fólki, því kynning er stundum ekki nógu öflug. „Hér er margt að sjá og heyra og það sem ég hef verið að gera, fyrstu vikuna mína sem menningarfulltrúi, er að koma mér upp póstlistum t.d. gæti áhugafólk um tónlist fengið sendan póst frá mér þegar einhverjir tónleikar eru á dagskrá o.s.frv. Ein auglýsing í dagblaði getur farið fram hjá fólki. Einnig er ég að vinna að því að koma mér í samband við fólk sem er að vinna að menningarstarfsemi hér á svæðinu og bið alla að hafa samband. Menningarfulltrúi vinnur lítið einn, hann á að hafa samráð og samvinnu við fólkið sjálft, fólkið sem hefur borið hitann og þungann af menningunni hér á svæðinu, oft við erfiðar aðstæður. Nú er kominn starfsmaður þeim til aðstoðar,“ segir Valgerður og hvetur alla til að hafa samband við sig sem hafa áhuga á menningu, hvort sem þeir eru neytendur eða gerendur. Hún er með skrifstofu á 2. hæð í Kjarna, síminn er 421-6700 og netfangið [email protected]. En svona að lokum, hvað er menning að þínu mati? „Menning er fyrir mér ekki munaður heldur nauðsynlegur þáttur í lífi sérhvers manns, allt sem nærir anda og sál. Hún er því jafn nauðsynleg og matur og það vita allir að maður lifir ekki á brauðinu einu saman. Menning er mjög fjölbreytt og allir eru tengdir henni á einn eða annan hátt, segir Valgerður, menningarfulltrúi Reykjanesbæjar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024