„Menn geta ekki einfaldlega keypt sér hitaveitu og skrúfað upp verðið“
Verðskrá Hitaveitu Suðurnesja (HS Orku) á rafmagni til heimila hefur hækkað um 26% síðustu þrjú árin. Ekkert annað orkufyrirtæki hefur hækkað verðaskrá sína jafnmikið í prósentum talið. Þetta kemur fram í nýlegri verðkönnun Neytendasamtakanna.
Þegar Geysir Green Energy keypti hlut í Hitaveitu Suðurnesja árið 2007 komu fram áhyggjur í þá veru að aðkoma einkaaðila inn í fyrirtækið kynni að valda verðhækkunum til neytenda. Þessar áhyggjur komu m.a. fram á íbúafundi sem haldinn var í Njarðvíkurskóla þegar deilur stóðu sem hæst um málið þá um haustið.
Ásgeir Margeirsson, forstjóri GGE, var inntur eftir þessu í viðtali við Víkufréttir í byrjun júní 2007. Þá sagði hann m.a. þetta:
„…Rekstur hita- og vatnsveitna er eftirlitsskyldur. Gjaldskrár fara því alltaf í gegnum samþykktarferli og regluverk hjá ráðuneytunum. Menn geta því einfaldlega ekki keypt sér hitaveitu og skrúfað upp verðið. Þetta gildir einnig um rafveiturekstur, þ.e. dreifikerfi raforkunnar.
Hvað raforkuna sjálfa varðar þá er um hana samkeppni á frjálsum markaði, skv. nýlegum breytingum á raforkulögum. Hver og einn notandi ræður því sjálfur af hvaða orkufyrirtæki hann kaupir rafmagn. Hækki orkufyrirtæki raforkuverð sitt getur notandinn einfaldlega snúið sér annað með sín viðskipti. Þarna gilda einfaldlega hin almennu samkeppnis- og markaðslögmál og það er ekkert eitt fyrirtæki sem breytir því.“
Verðkönnun Neytendasamtakanna sýnir að á sama tíma og verðskrá HS Orku hækkaði um 26% hækkaði verðskrá Orkubús Vestfjarða um 8%. Munur á hæsta og lægsta verði er þó ekki nema tæp 8%. Tekið skal fram að hér er einungis átt við við sölu á rafmagni en ekki dreifingu og flutning.
Raforkusala var gefin frjáls til neytenda í ársbyrjun 2006. Það þýðir að neytandanum er frjálst að eiga viðskipti við þann söluaðila rafmagns sem hann kýs. Þó er hluti raforkunnar ekki á frjálsum markaði því dreifing og flutningur er enn undir sérleyfisstarfsemi þar sem dreifiveita hvers svæðis sér um dreifingu raforku til notenda og kostnaður því breytilegur eftir landssvæðum. Þannig er dreifingin hér á svæðinu í höndum HS Veitna, þó svo að neytandinn kjósi að kaupa rafmagnið annars staðar.
Kjósi neytandinn að snúa viðskiptum sínum annað er ekki þar með sagt að hann geti skipt við þann sem býður lægsta verðið. Þannig fengust þau svör hjá Orkubúi Vestfjarða að ekki væri unnt að bæta við viðskipavinum þar sem fyrirtækið væri ekki aflögufært með raforku. Hins vegar var það auðsótt mál hjá Orkusölunni hf, sem heyrir undir RARIK og var bent á einfalt eyðublað sem þyrfti að fylla út á heimasíðu Orkusölunnar.
Verðkönnun Neytendasamtakanna: