Mengun innan þeirra marka sem krafist er
„Rétt er að loftmengun eykst með tilkomu kísilvers að Berghólabraut 8 en eins og segir í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Thorsil í Helguvík þá telur hún „að í matsskýrslu Thorsil sé sýnt fram á að styrkur ryks og köfnunarefnisoxíða vegna samlegðaráhrifa með kísilverksmiðju United Silicon og álveri Norðuráls verði innan marka reglugerðar nr. 251/2002, hvað varðar skammtímaviðmið (klukkustundar-og sólahringsgildi) og ársmeðaltal“ og hafi því ekki neikvæð áhrif á dýr og menn,“ segir m.a. í fundargerð Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar sem samþykkti á fundi sínum í dag breytingu á deiliskipulagi vegna kísilvers Thorsils í Helguvík. Fundargerðin verður lögð til afgreiðslu á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ næsta þriðjudag og er ekki von á öðru en að hún verði samþykkt þar.
Í fundargerð USK má sjá svör við athugasemdum sem bárust vegna auglýsingarinnar um breytingu á deiliskipulagi í Helguvík. Nærri 300 athugasemdir bárust en sameiginleg svör voru við athugasemdum frá 287 einstaklingum þar sem lýst var áhyggjum vegna loftmengunar.
Þar segir auk þess sem kemur fram fyrst í fréttinni:
„Flúormengun frá álverinu er helsta hættan fyrir hesta, en rannsóknir og mælingar vegna álversins í Hvalfirði, sem hefur verið starfrækt í 18 ár, segja m.a að niðurstöður skoðunar dýralæknis á tönnum og liðamótum framfóta lifandi grasbíta gefa til kynna að áhrif flúors séu ekki greinanleg. Ástand tanna og liðamóta var innan þeirra marka sem dýralæknir telur eðlilegt. Þessar upplýsingar eru fengnar úr ritinu „Umhverfisvöktun iðnaðarsvæðisins á Grunnartanga, niðurstöður ársins 2014" unnið af EFLU-verkfræðistofu. Í þessu riti er ítarleg heimildaskrá yfir rannsóknir vegna stóriðju allt frá árinu 1967. Þess ber að geta að álver er ekki til umfjöllunar í þessu deiliskipulagi.“
Þá segir í lok fundargerðinnar:
„USK-ráð hefur í þessu ferli og í kjölfar þeirra athugasemda sem bárust fengið fjölda aðila á fund ráðsins, sent fyrirspurnir á sérfræðinga og stofnanir auk þess sem starfmenn USK-sviðs hafa lagt á sig mikla vinnu við að svara þeim fjölda spurninga sem fram hafa komið vegna fyrirhugaðrar kísilverksmiðju og samlegðaráhrifum hennar og annarrar stóriðju. Niðurstaðan úr þessu ferli er sú að fyrirhuguð stóriðja í Helguvík mun vera innan þeirra mengunarmarka sem krafist er í lögum, reglum og starfsleyfi.
Það er þó ljóst að sú niðurstaða er byggð á útreikningum og athugunum sem geta aldrei náð sömu nákvæmni og rauntímamælingar. Því hefur ráðið lagt áherslu á að setja skýra skilmála um vöktun og mengunarvarnir í greinargerð með deiliskipulagi og leitast þannig við að tryggja að framtíðarstarfsemi í Helguvík muni standast þær kröfur sem gerðar eru til stóriðju í nálægð við íbúabyggð. Auk þess hefur ráðið jafnframt leitast við að tryggja sveitarfélaginu til viðbótar við eftirlitsaðila á vegum ríkisins, grundvöll til að bregðast við ef að starfsemi í Helguvík stenst ekki þær kröfur sem gerðar eru til hennar.
Í ljósi alls þessa sem að framan getur og þess að deiliskipulagsbreytingin samræmist aðalskipulagi samþykkir umhverfis- og skipulagsráð breytinguna á deiliskipulagi í Helguvík.“
Eysteinn Eyjólfsson, fulltrúi Samfylkingar og óháðra í USK ráðinu og formaður þess bókaði einnig:
„Ég tel að farsælasta leiðin til þess að ná sátt um umdeild meiriháttar skipulagsmál sé að efna til almennrar atkvæðagreiðslu meðal íbúa, sé þess nokkur kostur.
Önnur leið til sátta um það hvernig og hvert bærinn okkar eigi að þróast er almenn þátttaka íbúa í skipulagsferlinu frá byrjun. Umhverfis- og skipulagsráð hefur ákveðið að hefja endurskoðun á aðalskipulagi Reykjanesbæjar á haustdögum þar sem höfuðáhersla verður lögð á að tryggja aðkomu bæjarbúa að vinnunni og skipulagsferlinu. Mikilvægt er að íbúum sveitarfélaga gefist sem mest og flest tækifæri til þess að móta samfélag sitt – vonandi nýta sem flestir íbúar Reykjanesbæjar sér tækifærið sem gefst til þess og taka virkan þátt í endurskoðun aðalskipulagsins.“