Meirihlutinn í Vogum eftirlýstur
Nýr meirihluti í Vogum mætti ekki á aðalfund Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum í dag. Vakin var athygli á þessu á fundinum í dag. Eingöngu mættu fulltrúar nýs minnihluta ásamt bæjarstjóra Voga.
Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, lýsti eftir fulltrúum meirihlutans í Vogum og óskaði eftir því að þeir myndu mæta á seinni dag aðalfundarins á morgun, laugardag. Þar yrðu til umræðu mikilvæg mál í samstarfi sveitarfélaga á Suðurnesjum.
Bæjarfulltrúar nýs meirihluta í Vogum stóðu að umdeildri ákvörðun varðandi línulagnir Landsnets í bæjarlandi Voga. Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja hefur m.a. ályktað um málið og gagnrýnt ákvörðun meirihlutans.
Svæðisskipulagsmál verða meðal dagskrárliða aðalfundarins á morgun og því telja fulltrúar á aðalfundinum nauðsynlegt að þeir sem fara með meirihlutastjórn í Vogum mæti til fundarins.
Böðvar Jónsson lýsti eftir fulltrúum nýs meirihluta í Vogum á aðalfundi SSS í dag. Aðeins voru mættir fulltrúar minnihlutans og bæjarstjóri Voga en þau má sjá á efri myndinni. VF/hilmarbragi