Meirihlutinn heldur velli í Garði
Ekki verður boðað til aukafundar í bæjarstjórn Garðs í dag, eins og ákveðið hafði verið sl. laugardag. Jónína Holm, forseti bæjarstjórnar Garðs, segir að allir bæjarfulltrúar stefni á að vinna að góðum verkefnum fyrir íbúana og í breiðri sátt.
Jónína segir að minnihluta D-lista hafi verið boðin þátttaka og samstarf um breiða sátt allt frá því nýr meirihluti tók til starfa um miðjan maí sl. Þau hafi afþakkað þá samvinnu.
Fundahöld voru í Garðinum um helgina vegna stöðunnar sem komin var upp í bæjarpólitíkinni. D-listinn hafði lýst áhuga á myndun meirihluta með bæjarfulltrúa L-lista. Davíð Ásgeirsson, bæjarfulltrúi L-listans, lýsti því yfir í síðustu viku að vegna áherslumunar við stjórnunaraðferðir, hafi hann ákveðið að fara í viðræður við D-listann um nýjan meirihluta.
Meirihlutinn í Garði fundaði um helgina og þar var ákveðið að Einar Jón Pálsson, oddviti D-listans, sem skipar minnihlutann, yrði kjörinn forseti bæjarstjórnar. Einari Jóni var ekki kunnugt um þá ákvörðun þegar hún var borin undir hann um helgina. Þá áréttaði hann að D-listinn ætti í viðræðum við bæjarfulltrúa L-lista um meirihlutasamstarf.
L-listinn kom svo saman til fundar með bæjarfulltrúa sínum í gær. Víkurfréttum er ekki kunnugt um niðurstöðu þess fundar, nema þá að forseti bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Garðs lýsir því hér að ofan að meirihlutinn haldi velli og ætli að vinna áfram saman.