Meirihlutinn fallinn í Garði
Meirihlutinn í Garði er að falla. Bæjarráðsfundi, sem vera átti í fyrramálið, hefur verið frestað. Kolfinna S. Magnúsdóttir, bæjarfulltrúi í Garði, staðfestir í samtali við Víkurfréttir að D-listinn og fulltrúi L-lista séu að mynda nýjan meirihluta. Magnús Stefánsson verður áfram bæjarstjóri, samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta.
D-listinn missti meirihluta sinn í vor þegar Kolfinna myndaði nýjan meirihluta með fulltrúum N- og L-lista. Nú er sá meirihluti að falla þar sem fulltrúi L-lista er að ganga til nýs meirihlutasamstarfs við D-listann.
Einar Jón Pálsson, oddviti D-listans, vildi ekki veita viðtal þegar haft var samband við hann nú áðan en neitaði ekki þeim fréttum að breytingar væru að verða í bæjarstjórninni í Garði.