Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Meiri vetrartraffík en áður
Föstudagur 15. mars 2013 kl. 09:19

Meiri vetrartraffík en áður

Eins og fram hefur komið undanfarið í fjölmiðlum hefur straumur ferðamanna til landsins verið að aukast jafnt og þétt síðustu ár. Eðlilega fer Reykjanesið ekki varhluta af þessu þar sem þorri flugfarþega erlendis frá fer um Leifsstöð við komu sína til landsins. En það er ekki bara umferðin sem er að aukast heldur virðist sjálft ferðamannatímabilið einnig vera að lengjast. Þegar rætt er við aðila í ýmsum geirum ferðaþjónustu á svæðinu eru menn almennt bjartsýnir þegar litið er til sumarsins en einnig tala þeir allir um hve mikil aukning hefur orðið yfir vetrarmánuðina utan hins hefðbundna tímabils.

Betra sumar en í fyrra
Þetta heyrist á máli Ólafar Elíasdóttur gestgjafa Hótel Bergs og í sama streng tekur Bergþóra Sigurjónsdóttir hótelstjóri hjá Icelandair Hotel í Keflavík. Hún segir veturinn hafa verið mjög góðan, bæði hvað varðar erlenda og innlenda gesti. Hótelið sé vel í stakk búið fyrir heilsársrekstur, með góða aðstöðu fyrir fundi og ráðstefnur, en einnig séu breytingar fyrirsjáanlegar í húsinu hvað varðar þjónustu við ferðamenn og íbúa svæðisins. Nefnir Bergþóra þar snyrtistofuna Carisma sem opnaði sl. haust og svo sé bókasafnið brátt á förum, en þessa dagana er verið að skoða möguleika á nýtingu þess húsnæðis í tengslum við hótelreksturinn. „Svo stefnir í mun betra sumar en í fyrra, og var það sumar mjög gott,“ segir Bergþóra og er bjartsýn á framhaldið.

Jákvæð teikn á lofti
„Við erum í toppmálum“, segir Garðar Vilhjálmsson eigandi bílaleigunnar Geysis sem er staðsett í Reykjanesbæ, „erum bæði að sjá aukningu í umsvifum yfir veturinn, sérstaklega það sem af er árinu, og svo eru bókanir fyrir sumarið með því allra besta sem hefur sést“. Garðar segir teikn á lofti vera mjög jákvæð og þá aðallega þessi aukning yfir vetrarmánuðina. Þar sýni sig að sú markaðsvinna sem verið hefur í gangi fyrir þetta tímabil sé að skila sér. Hann segir að síðustu þrjú ár hafi umfang rekstursins verið nokkuð stöðugt en nú sé tækifæri til að bæta við. Það sé mikil gerjun í gangi í ferðaþjónustu hér á svæðinu og tímabært að fólk í þessum bransa fari að taka höndum saman um að styrkja greinina. Garðar segir ekki endalaust hægt að taka við fleiri gestum án þess að hlúa betur að innviðunum. Til þess þurfi að styrkja þá ferðamannastaði sem fyrir eru og byggja upp nýja, til að mæta vaxandi þörf sem fylgir þessari auknu umferð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024