Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Meiri tengimöguleikar á Keflavíkurflugvelli
Þriðjudagur 19. júní 2018 kl. 13:27

Meiri tengimöguleikar á Keflavíkurflugvelli

Í nýrri skýrslu um tengimöguleika flugvalla, sem ACI (Airports Council International - Alþjóðasamtökum flugvalla), sendu frá sér í dag, er Keflavíkurflugvöllur meðal þeirra flugvalla þar sem mest aukning hefur orðið í tengimöguleikum frá árinu 2008. Skýrsla ACI er gefin út í tengslum við ársþing samtakanna sem hófst í Brussel í dag.
Skýrslan byggir á tölfræði og greiningum frá SEO Amsterdam Economics í Hollandi.

Umfang og gæði tenginganna var metið á grundvelli þriggja mælikvarða:
Beinum tengingum (Direct Connectivity): Fjöldi beinna flugtenginga í boði á flugvelli.
Óbeinum tengingum (Indirect Connectivity): Þá er mælt á hversu marga staði er hægt að fljúga frá beinum áfangastöðum.
Tengimöguleikar safnvallar (Hub Connectivity): Helsti mælikvarðinn á safnflugvelli (e. hub) – metinn er fjöldi tengifluga sem hægt er að tryggja greiðan aðgang að á viðkomandi flugvelli. Tíminn sem tekur að ná tengiflugi er sérstaklega metinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er mat ACI í skýrslunni að Keflavíkurflugvöllur sé orðinn mikilvægur þátttakandi á alþjóðavísu þegar kemur að tengingum þvert yfir Atlantshafið og möguleikunum fyrir miðstöð flugs milli heimsálfa.
ACI flokkar flugvelli eftir stærð og Keflavíkurflugvöllur í hópi með flugvöllum með 5-10 milljónir farþega á ársgrundvelli. Á síðustu fimm árum hefur beinum tengingum fjölgað um 132,1% og trónir Keflavíkurflugvöllur því á toppnum í þessum flokki. Ef horft er á síðasta áratug hefur aukningin verið tæp 270% og þar er Keflavíkurflugvöllur einnig á toppnum í sínum flokki.
Þá kemur fram í skýrslu ACI að tengimöguleikar Keflavíkurflugvallar sem safnvallar (e. hub) hafi aukist um 1541% síðan 2008.

Á undanförnum árum hefur Isavia markvisst unnið að því að efla Keflavíkurflugvöll sem tengiflugvöll (e. hub) í samvinnu við þau flugfélög sem lenda á vellinum. Í dag eru áfangastaðir frá Keflavíkurflugvelli 101 þar af heilsársáfangastaðir 46. Fyrir fimm árum voru áfangastaðirnir 54, þar af 18 árið um kring. Í sumar fljúga 28 flugfélög til og frá Keflavíkurflugvelli og þar af 12 allt árið. Árið 2010 voru heilsársflugfélögin þrjú.
Tengiflugvellir hafa, eins og komið hefur fram í innlendum og erlendum greiningum, geysilega jákvæð áhrif á samfélag sitt bæði hvað varðar efnahagsleg áhrif þar sem greiðari leið opnast fyrir fyrirtæki að flytja vörur á nýja erlenda markaði. Þá eykst úrval áfangastaða fyrir almenning. Fram kemur í skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið Intervistas vann fyrir ACI Europe, hefur fjölgun flugtenginga jákvæð áhrif á þjóðarframleiðslu. Samkvæmt skýrslunni eykst landsframleiðsla um 0,5% þegar flugtengingar aukast um 10%.

„Ég vil þakka starfsfólki Keflavíkurflugvallar sem og starfsmönnum Isavia í heild fyrir frábært starf í krefjandi umhverfi síðastliðin ár,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. „Það góða starf sem hefur verið unnið til að koma okkur á þennan stað hefur svo sannarlega skilað sér í auknum tengimöguleikum og opnað nýjar gáttir út í heiminn fyrir almenning og fyrirtæki á Íslandi. Mikilvægt er að uppbygging Keflavíkurflugvallar geti haldið áfram þannig að enn fleiri tækifæri til tenginga verið nýtt á komandi árum.“