Meiri hagræðing með sameiningu
Frekara samstarf og/eða sameining sveitarfélaga á Suðurnesjum segir bæjarstjórinn í Reykjanesbæ við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar. Áskoranir og tækifæri framundan.
„Það eru ekki bara áskoranir framundan heldur einnig tækifæri. Vil ég þar nefna frekari útvistun verkefna, t.d. þegar kemur að tölvumálum og vistun gagna, en einnig áherslu á útboð framkvæmda og þjónustu. Þá tel ég að framundan séu miklar breytingar í starfsháttum og verklagi sveitarfélaga sem kalli á stórátak í grunnmenntun og þjálfun nýrra starfsmanna en einnig sí- og endurmenntun þeirra sem fyrir eru, bæði faglærðra sem ófaglærðra. Með meiri þjálfun og kunnáttu starfsmanna má bæta þjónustu, stytta tíma og verkferla, hraða afgreiðslu, spara kostnað og auka starfsánægju. Þetta eru dæmi um verkefni sem ég held að sveitarfélögin gætu sameinast um og þannig náð fram enn meiri hagræðingu. Frekara samstarf og/eða sameining sveitarfélaga á Suðurnesjum er svo annað stórt mál sem ég held að muni verða ofarlega á baugi á næstu misserum,“ sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, í ræðu sem hann hélt við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2022–2025 í síðustu viku.
Miklar sveiflur
Kjartan sagði að síðustu ár hafa einkennst af miklum sveiflum og stórum viðfangsefnum. Suðurnesin settu Íslandsmet í atvinnuleysi sumarið 2020 þegar langstærsti vinnustaður svæðisins, Keflavíkurflugvöllur, svo gott sem lokaði í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19. Þótt alþjóðaflugið hafi nú heldur rétt úr kútnum á flugvöllurinn enn langt í land með að ná fyrra umfangi og atvinnuleysi því enn talsvert á svæðinu.
Samkvæmt spám ISAVIA og flugfélaganna eru enn nokkur ár í að flugumferð, og þar með fjöldi starfa á Keflavíkurflugvelli, nái sama umfangi og árið 2018. Slíkt hefur auðvitað áhrif á tekjur fólks og heimila en um leið á tekjur sveitarfélaganna. Til að mæta því ástandi hafa ríki og sveitarfélög gripið til fjölmargra aðgerða til að skapa tímabundin störf og hefur Reykjanesbær nýtt sér þau úrræði, og þannig axlað sína samfélagslegu ábyrgð, mjög vel.
„Til að ljúka umræðum um heimsfaraldurinn er rétt að minna á að í fræðunum er talað um að birtingarmynd slíkra fyrirbæra sé í þremur bylgjum. Fyrst heimsfaraldurinn sjálfur, þá efnahagsleg niðursveifla í kjölfar samdráttar og atvinnuleysis og í þriðja lagi félagslegar áskoranir vegna alls þessa. Ein birtingarmyndin er til dæmis mikill skortur á menntuðum félagsráðgjöfum, sálfræðingum, kennurum, læknum, hjúkrunarfræðingum og öðrum þeim stéttum sem sinna íbúum á margvíslegan hátt. Það verður sameiginleg áskorun ríkis og sveitarfélaga næstu árin að bæta þar úr.
Við erum nú á bólakafi í þessum bylgjum öllum og reynum eftir fremsta megni að mæta þeim áskorunum sem fylgja með viðeigandi og sjálfbærum hætti. Sú vinna mun mögulega halda áfram í einhver ár í viðbót,“ sagði Kjartan.
Breyttar starfsaðferðir í heimsfaraldri
„Á þessum tímum yfirstandandi heimsfaraldurs Covid-19, sem við höfum og erum enn að upplifa, hefur þó margt gott komið í ljós. Til dæmis hefur færni í notkun fjarfunda og tölvutækni stóraukist sem og umræða og áherslur um stafræna þróun í þjónustu sveitarfélaga, bæði það sem snýr að íbúum en líka það sem snýr innávið að kjörnum fulltrúum og starfsmönnum. Við höfum einnig góða reynslu af því að heimila þeim starfsmönnum, sem þess óska og þar sem verkefnin henta, að vinna að hluta til heiman frá sér. Þessi mál og stafræn þróun sveitarfélaga í heild sinni verða því áfram ofarlega á baugi hjá okkur á næstu misserum og árum.
Aðrar áskoranir sem vert er að nefna er tímabundinn samdráttur í tekjum og aukin útgjöld, m.a. mikil hækkun launakostnaðar í kjölfar gildandi og væntanlegra nýrra kjarasamninga og styttingu vinnuvikunnar, meiri verðbólgu en áætlanir gerðu ráð fyrir, jarðhræringar og möguleg áframhaldandi eldgos á Reykjanesi,“ sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, í ræðu sinni á fundinum.