Meiri gagnaflutningshraði í farsímana
Lokið hefur verið við stækkun á EDGE þjónustusvæði GSM kerfis Símans og nær hún nú einnig til Reykjanesbæjar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Við þessa breytingu eykst mögulegur gagnaflutningshraði úr 40-50 kbps í 200-220 kbps.
Stækkunin kemur til móts við vaxandi hóp fólks sem nýtir farsímana til að tengjast Internetinu. Stækkunin gerir viðskiptavinum Símans kleift að vafra á Internetinu, eiga í tölvupóstsamskiptum, senda og fá til sín gögn, hreyfimyndir og ljósmyndir á allt að fjórföldum hraða frá því sem þekkist í núverandi GPRS kerfi.
EDGE tæknin brúar bilið frá hefðbundnum GPRS gagnaflutningshraða yfir í háhraða gagnaflutning farsímaneta þriðju kynslóðar sem Síminn hefur hafið uppsetningu á og stefnir að verði komið í rekstur í lok sumars.
VF-mynd/elg