Fréttir

Meiri framkvæmdir við uppbyggingu en undanfarin ár
Fimmtudagur 3. janúar 2019 kl. 11:20

Meiri framkvæmdir við uppbyggingu en undanfarin ár

Á árinu 2018 hafa verið meiri framkvæmdir við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis en mörg undanfarin ár í sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis, sem nú heitir Suðurnesjabær. Unnið er að nýju deiliskipulagi sunnan Sandgerðisvegar í Sandgerði og standa vonir til að það verði staðfest áður en langt líður á árið 2019. Fyrr á árinu 2018 var lokið við að staðfesta deiliskipulög í tveimur íbúðarhverfum í Garði, lóðum hefur verið úthlutað og uppbygging íbúðarhúsa er hafin í þeim hverfum.  Þá hefur mikil uppbygging hefur verið á árinu og mun verða áfram í og við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mikill vöxtur hefur verið í allri starfsemi þar og er útlit fyrir áframhaldandi vöxt á næstu árum, með tilheyrandi uppbyggingu, fjölgun starfa og aukinni umferð um svæðið. Þetta kemur fram í pistli sem Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar, ritar á vef sveitarfélagsins nú um áramótin.
 
Pistill Magnúsar er í heild sinni hér að neðan:
 

Við áramót

 
Árið 2018 var viðburðaríkt og ár mikilla breytinga. Eftir að íbúar sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar samþykktu í nóvember 2017 að sveitarfélögin skyldu sameinast, var unnið að undirbúningi þess og tók nýtt sameinað sveitarfélag til starfa 10. júní 2018.  Sveitarstjórnarkosningar voru í maí, þá kusu íbúar í fyrsta skipti bæjarstjórn fyrir sameinað sveitarfélag. Níu fulltrúar eiga sæti í bæjarstjórn, en voru sjö í hvoru sveitarfélagi fyrir sameiningu. Íbúar sveitarfélagsins eru nú ríflega 3.500 talsins.
 
Sameiningu sveitarfélaganna fylgja mjög mörg og margvísleg verkefni, til að móta nýtt sveitarfélag og var unnið að þeim á árinu. Eitt af því er að ákveða sveitarfélaginu nafn.  Síðastliðinn vetur og vor fóru fram rafrænar kosningar meðal íbúa, þar sem val stóð milli tillagna um nafn á sameinað sveitarfélag. Þær kosningar skiluðu ekki niðurstöðu og ákvað bæjarstjórn í júní að halda áfram leit að nafni á sveitarfélagið. Svo fór að í nóvember kusu íbúar á ný milli tillagna um nafn og hlaut nafnið Suðurnesjabær afgerandi stuðning 75% þeirra sem þátt tóku. Bæjarstjórn samþykkti nafnið, hið sama gerði sveitarstjórnarráðuneytið og mun sveitarfélagið heita Suðurnesjabær frá og með 1. janúar 2019. Það er mikilvægur áfangi í þróun sveitarfélagsins. Eftir áramótin verður sveitarfélaginu valið nýtt byggðarmerki (logo) og ný heimasíða verður opnuð fljótlega á nýju ári.     
 
Eftir að bæjarstjórn tók til starfa í júní var samþykkt stjórnskipulag sveitarfélagsins, sem byggði á tillögum sem lágu fyrir við sameiningu sveitarfélaganna. Í grunnin er starfseminni skipt í þrjú megin svið; stjórnsýslusvið, fjölskyldusvið og framkvæmda-og skipulagssvið. Ákveðið var að nýta ráðhúsið í Garði, þar sem stjórnsýslusvið og framkvæmda- og skipulagssvið eru staðsett og ráðhúsið í Sandgerði þar sem fjölskyldusvið er staðsett. Starfsfólk hefur frá því sameining tók gildi unnið að því að sameina og samræma starfsemina í eitt sveitarfélag. Þar liggur mikil vinna að baki og á starfsfólk sveitarfélagsins skilið hrós og þakkir fyrir þeirra framlag í þeim efnum.
 
Á árinu hafa verið meiri framkvæmdir við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis en mörg undanfarin ár.  Það á við bæði um Sandgerði og Garð. Unnið er að nýju deiliskipulagi sunnan Sandgerðisvegar í Sandgerði og standa vonir til að það verði staðfest áður en langt líður á árið 2019. Fyrr á árinu var lokið við að staðfesta deiliskipulög í tveimur íbúðarhverfum í Garði, lóðum hefur verið úthlutað og uppbygging íbúðarhúsa er hafin í þeim hverfum. 
 
Mikil uppbygging hefur verið á árinu og mun verða áfram í og við flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mikill vöxtur hefur verið í allri starfsemi þar og er útlit fyrir áframhaldandi vöxt á næstu árum, með tilheyrandi uppbyggingu, fjölgun starfa og aukinni umferð um svæðið. Það er ánægjulegt að innan sveitarfélagsins sé jafn öflug starfsemi og mikil uppbygging og raun ber vitni á starfssvæði flugstöðvarinnar.  
 
Á vegum sveitarfélagsins hafa verið ýmsar framkvæmdir á árinu 2018, en ákvarðanir um þau verkefni voru teknar af fyrrverandi bæjarstjórnum Sandgerðis og Garðs við afgreiðslu fjárhagsáætlana í desember 2017. Í því sambandi má m.a. nefna að unnið var að nokkrum verkefnum við gatnakerfi og göngustíga í báðum byggðarkjörnum, hafin var stækkun leikskólans Gefnarborgar í Garði undir lok ársins, framkvæmdir voru við fráveitu og unnið að undirbúningi framkvæmda við göngu og hjólreiðastíg milli byggðarkjarnanna. Þá má nefna að í samstarfi við Vegagerðina var unnið að framkvæmdum við endurbyggingu hluta Suðurbryggju í Sandgerðishöfn.
 
Menningar- og félagslíf er í miklum blóma í samfélaginu. Mikill kraftur hefur verið í starfsemi íþróttafélaganna Reynis og Víðis, með öflugu félagslífi og góðum árangri í íþróttamótum. Í sveitarfélaginu eru tveir golfklúbbar sem reka sinn hvorn 18 holu golfvöllinn. Kvenfélögin halda uppi öflugri starfsemi eins og verið hefur um árabil, sama er að segja um starfsemi líknarklúbba. Kirkjustarf hefur einnig verið líflegt, sama er að segja um starfsemi kóra og annað á sviði tónlistar. Samfélagið býr að góðum tónlistarskólum og skilar það sér út í samfélagið með tónleikum og ýmsum uppákomum.  Starfsemi björgunarsveitanna hefur verið mjög virk og má geta þess að Björgunarsveitin Sigurvon í Sandgerði fagnaði 90 ára afmæli á árinu 2018 og er elsta björgunarsveit landsins.  
 
Áramót eru jafnan sérstakur tími, þá er gjarnan litið um öxl um liðið ár og rýnt til framtíðar. Árið 2018 hefur verið viðburðaríkt á vettvangi sveitarfélagsins. Hér hefur aðeins verið stiklað á stóru um viðburðaríkt ár 2018, margt fleira mætti nefna í upprifjun um árið. Framtíðin er björt, með mörgum tækifærum og möguleikum. Það er spennandi að horfa til þeirra fjölmörgu verkefna sem bíða á næstu misserum og árum. Fyrstu skref sameinaðs sveitarfélags og íbúa þess lofa góðu um framtíðina.
 
Fyrir hönd sveitarfélagsins er íbúum, atvinnufyrirtækjum, öllu starfsfólki sveitarfélagsins og kjörnum fulltrúum þakkað fyrir ánægjulegt samstarf á árinu 2018, með ósk um að nýtt ár verði okkur öllum farsælt og kærleiksríkt.
 
Magnús Stefánsson
bæjarstjóri.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024