Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Meinað að landa í Hollandi
Þriðjudagur 7. júní 2005 kl. 14:23

Meinað að landa í Hollandi

Flutningaskipið Sunny Jane, sem staðið var að því að taka við fiski frá svokölluðum sjóræningjatogara á Reykjaneshrygg þann 27. maí síðastliðinn, var meinað að landa í Hollandi, að sögn Dagmarar Sigurðardóttur, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar. Sjóræningjatogarar eru skip sem ekki eru með leyfi til veiða á fiskveiðistjórnunarsvæði Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC).

„Það síðasta sem við fréttum var að skipið kom til hafnar í Hollandi og þar var því vísað frá höfn og ekki veitt nein þjónusta,“ segir Dagmar. Hvað varðar viðbrögð við ólöglegum veiðum sem þessum segir Dagmar eina möguleikann þann að tilkynna skipið til réttra aðila. „Þetta gerðist á úthafinu og þar eru takmarkaðar heimildir til að beita sér gegn þessum skipum. Það er eingöngu innan fiskveiðilögsögunnar sem hægt er að gera eitthvað róttækt í málunum. Eini kosturinn í stöðunni var því að tilkynna skipið til Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) og síðan sér nefndin um að beita sér gagnvart fánaríkjum skipanna, senda þeim upplýsingar um þessar veiðar og beina þeim tilmælum til stjórnvalda í þeim löndum að þau fari að lögum,“ segir Dagmar.

Sunny Jane var ekki á hinum svarta lista Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) þegar það var staðið að móttöku aflans á Reykjaneshrygg, en því hefur nú verið bætt á listann að því er fram kemur á heimasíðu nefndarinnar. Ólíklegt þykir að skip sem eru á þessum svarta lista nefndarinnar geti fengið þjónustu í höfnum í Evrópu.

Þetta kemur fram á fréttavef Morgunblaðsins

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024