Meðallaun í flugskýli ECA um 8 milljónir króna
Fyrirhuguð starfsemi E.C.A. Program Iceland ehf. mun aðallega skapa störf fyrir flugvirkja og viðhaldsfólk hér á svæðinu. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta gerir fyrirtækið ráð fyrir að ráða um 100 flugvirkja og annað viðhaldsfólk í flugskýli til að þjónusta allt að 20 þotur af gerðinni Sukhoi Su-30Mk og Yakovlev Yak-130. Störfin í flugskýli félagsins munu skila meðallaunum upp á um 8 milljónir króna á ári.
E.C.A. Program Iceland ehf. gerir einnig ráð fyrir umfangsmiklu skrifstofustarfi á Keflavíkurflugvelli og mun ráða til sín um 5o manns á skrifstofur félagsins.
Eins og við greindum frá í gær mun fyrirtækið greiða um 800 milljónir í opinber gjöld á árin, þegar starfsemin verður komin í fullan rekstur.
Samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta er fyrirtækið að gera ráð fyrir því að kaupa flugvélaeldsneyti hér á landi fyrir yfir hálfan milljarð króna á ári. Einnig mun fyrirtækið kaupa út mötuneytisþjónustu, ræstirngar og fleira í þeim dúr fyrir hundruð milljóna króna á ári. Þá segja heimildir Víkurfrétta að á annað hundrað milljónum króna verði varið árlega í endurmenntun starfsfólks, þróunarkostnað og fleira. Starfsemi E.C.A. Program Iceland ehf. mun því hafa mikil áhrif út í íslenskt samfélag og sérstaklega í nærsamfélagið hér á Suðurnesjum.