Meðalhraunrennslið 16 m3/s
Hraunsléttan vestan og norðvestan gígsins seig um þrjá til fjóra metra eftir hlaup úr hrauntjörn
Ný mæling á rúmmáli hraunsins úr eldgosinu í Fagradalsfjalli fór fram þann 17. september. Þá voru teknar loftmyndir með Hasselblad-myndvél Náttúrufræðistofnunar úr flugvél Fisfélagsins. Gerð hafa verið landlíkön eftir þessum mælingum og þau borin saman við eldri gögn. Mælingarnar sýna að meðaltal hraunrennslis yfir þetta átta daga tímabil var 11,8 rúmmetrar á sekúndu. Þetta er sama hraunflæði og var lengst af í maí og júní, heldur meira en var í ágúst. Gosið lá niðri þann 9. en tók sig upp þann 11. september. Það er því svo að sjá að meðalrennslið hafi verið 16 rúmmetrar á sekúndu 11. til 17. september.
Hraunið er nú 151 milljón rúmmetrar og flatarmálið 4,8 ferkílómetrar. Eftir að gosið tók sig upp aftur hefur hraunið runnið í Geldingadali og náð niður í Nátthaga. Hraun rann á tímabili til norðurs og fyllti í skika sem var milli norðurgíganna sem virkir voru í apríl og hásléttu Fagradalsfjalls.
Allt frá því í júlí hefur hraunið ekki náð að renna út að jaðri á þeim stöðum sem fjærstir eru gígnum, enda hefur lengst af þessa tíma verið lotubundin virkni. Þá 12–24 tíma sem virknipúlsarnir stóðu yfir í júlí og ágúst var hraunrennslið að mestu á yfirborðinu. Sama var uppi á teningnum þá sjö daga sem samfelld virkni varði núna 11. til 18. september. Verði hins vegar löng tímabil af samfelldri virkni á komandi vikum má búast við að hraun fari að renna meira í innri rásum og gæti þá náð að jaðrinum aftur, segir í samantekt á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.
Athygli vakti þegar mikið hraun rann skyndilega fram Geldingadali og niður í Nátthaga miðvikudaginn 15. september. Þessi púls stóð þó stutt yfir. Samhliða seig hraunsléttan vestan og norðvestan gígsins um þrjá, fjóra metra. Það er því svo að sjá að þar hafi safnast fyrir bráðið hraun undir storknu yfirborði í þrjá, fjóra daga, sem síðan braust fram eins og lýst er hér að framan. Þetta ferli getur endurtekið sig á næstunni. Það auðveldar ekki störf viðbragðsaðila, þar sem hlaup af þessu tagi geta flætt út úr núverandi farvegi, og þá einna helst niður í Nátthagakrika. Fylgjast þarf náið með þessari hrauntjörn á næstunni, segir Jarðvísindastofnun HÍ.