Meðalhraðaeftirlit með myndavélum á Grindavíkurvegi
Meðalhraðaeftirlit á Grindavíkurvegi hófst á hádegi í dag en auk Grindavíkurvegar verður samskonar eftirlit í Norðfjarðagöngunum.
Í fyrsta sinn á Íslandi verður sú aðferð notuð að reikna út meðalhraða bifreiða á milli tveggja punkta á sjálfvirkan hátt. Rannsóknir sýna að sjálfvirkt hraðaeftirlit virkar vel til að halda niðri umferðarhraða og fækka slysum. Meðalhraðaeftirlit er þó enn áhrifaríkara en punkthraðaeftirlit. Vonast er til að hægt verði að fjölga meðalhraðaköflum á næstu misserum, segir á vefsíðu Vegagerðarinnar.
Kaflinn sem um ræðir er á Grindavíkurvegi milli Bláalónsvegar og Grindavíkur. Undirbúningur hefur staðið yfir frá árinu 2017 en tilraun með sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit hér á landi var fyrst gerð árið 2015 með aðstoð norsku vegagerðarinnar.
Vegagerðin ber ábyrgð á tæknilegri framkvæmd eftirlitsins, en Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á úrvinnslu og innheimtu sekta. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, staðfesti í september uppfærðan samstarfssamning Vegagerðarinnar, Samgöngustofu og Ríkislögreglustjóra um sjálfvirkt hraðaeftirlit með löggæslumyndavélum.