Með unga dóttur í fíkniefnaakstri

Ökumaður sem lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði um helgina vegna gruns um fíkniefnaakstur var með unga dóttur sína í bifreiðinni. Er þetta í annað skipti á skömmum tíma sem umræddur einstaklingur er stöðvaður í akstri  af sömu sökum. Hann var handtekinn og málið jafnframt tilkynnt til barnaverndarnefndar.
Annar ökumaður hafði áður verið handtekinn einnig vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Þá hafði lögregla afskipti af þremur einstaklingum á gistiheimili í umdæminu sem reyndust vera í mjög annarlegu ástandi. Í herbergi sem þeir voru í reyndist vera talsvert af meintum hvítum fíkniefnum í neysluumbúðum. Þá var einn þremenninganna með meint kókaín innan klæða. Mennirnir voru handteknir og færðir á lögreglustöð.