Með þrjú kíló af kókaíni falin í tösku
Lögreglan á Suðurnesjum hefur að undanförnu haft til rannsóknar mál sem upp kom þegar ungt íslenskt par kom til landsins með tvær ferðatöskur sem í voru falin á fjórða kíló af kókaíni. Parið var að koma frá Tenerife 10. mars síðastliðinn þegar lögregla handtók það í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eftir að tollverðir höfðu stöðvað för þess.
Í botni beggja taskanna reyndust vera samtals 3.3 kíló rúm af kókaíni. Karlmaðurinn er 23 ára og stúlkan sautján ára. Maðurinn játaði við skýrslutöku hjá lögreglu að hann hefði skipulagt innflutning efnanna, sem hann reyndi að smygla til landsins, án vitundar stúlkunnar. Þeim var báðum gert að sæta gæsluvarðhaldi, honum á Hólmsheiði en stúlkan var vistuð á Stuðlum sökum ungs aldurs.
Rannsókn málsins er á lokastigi.