Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Með sprungið milta eftir fall af hlaupahjóli
Laugardagur 14. maí 2005 kl. 14:35

Með sprungið milta eftir fall af hlaupahjóli

Þrettán ára strákur slasaðist alvarlega þegar hann féll á hlaupahjóli sínu í fyrradag á Hátúni í Keflavík. Drengurinn fékk stýrið í kviðinn með þeim afleiðingum að miltað sprakk. Var hann fluttur á bráðamóttöku Landspítala Háskólasjúkrahúss og var þaðan fluttur á gjörgæsludeild. Eftir aðhlynningu lækna var hann síðan fluttur á Barnaspítala Hringsins.

Samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta er líðan drengsins eftir atvikum. 

 

Hvað er miltað? - Af vísindavef Háskóla Íslands.

Miltað tilheyrir vessakerfi líkamans og er stærsta líffærið í líkamanum úr eitilvef. Það er þakið hylki úr þéttum bandvef og liggur milli maga og þindar.

Í miltanu eru ýmsar gerðir af blóðfrumum, þar með talin rauðkorn, átfrumur og hvítfrumur. Miltað síar ekki vessa eins og önnur líffæri vessakerfisins en það inniheldur holrúm til að geyma blóð sem er eitt meginhlutverk þess. Við mikinn blóðmissi sjá driftaugaboð um að líkaminn tæmi blóðgeymslur, þar með talið miltað, til að viðhalda sem eðlilegustu blóðrúmmáli og blóðþrýstingi.

Miltað er hluti af ónæmiskerfinu eins og aðrir eitilvefir. Hlutverk miltans í ónæmi er myndun B-eitilfrumna sem þroskast í B-verkfrumur (plasmafrumur) sem framleiða mótefni. Einnig sjá frumur í miltanu um að innbyrða og sundra bakteríum og úr sér gengnum rauðkornum og blóðflögum. Snemma á fósturskeiði tekur miltað þátt í myndun blóðfrumna.

Miltað er það líffæri sem oftast skaddast við áverka á kvið, einkum þá sem verða við þung högg á neðri hluta brjóstkassa eða efri hluta kviðar vinstra megin og valda broti rifbeina. Hætta er á að brotin rifbein stingist í miltað og rífi það í sundur. Ef slíkt gerist er miltað fjarlægt til að koma í veg fyrir meiri háttar blæðingu og lost sem getur leitt til dauða. Hlutverkum miltans er þá sinnt af öðrum líkamshlutum, einkum blóðmerg.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024