Með nær 700 grömm af kókaíni innvortis
Maðurinn sem var handtekinn á Keflavíkurflugvelli í liðinni viku eftir að tollverðir fundu fíkniefni í handfarangri hans reyndist alls hafa haft 671 gramm af kókaíni innvortis þegar hann lagði upp í smyglferðina. Þetta er mesta magn fíkniefna sem reynt hefur verið að smygla innvortis til landsins svo vitað sé. Þetta kemur fram á vefsvæði Morgunblaðsins.
Maðurinn, sem er frá Nígeríu, hafði bæði falið fíkniefnin í endaþarmi og gleypt þau. Alls hafði hann 68 hylki innvortis. Hluti af efnunum hafði gengið niður á leiðinni til landsins og brá maðurinn þá á það ráð að setja þau í sokk og kom honum síðan fyrir í bakpoka sínum. Sokkurinn fannst við tollskoðun og í kjölfarið var maðurinn sendur í röntgenskoðun. Það var ekki fyrr en þremur dögum síðar sem fíkniefnin höfðu öll gengið niður af manninum.
Fram að þessu hafði mesta magn fíkniefna sem smyglað var innvortis fundist í nígerískri konu sem handtekin var í júlí sl. með um 330 grömm af kókaíni innvortis. Að auki bar hún 155 g innanklæða. Í ágúst var maður frá Litháen handtekinn með um 300 g af kókaíni innvortis og hlaut hann fyrir það 14 mánaða fangelsisdóm.
Af mbl.is
Mynd úr safni VF