Með mölbrotið andlit eftir líkamsárás
Tvítugur maður, sem varð fyrir alvarlegri líkamsárás við skemmtistaðinn Trix um helgina, liggur á sjúkrahúsi með mölbrotið andlit. Að sögn föðurbróður mannsins gekkst hann undir rúmlega fjögurra klukkustunda aðgerð í gær og var í morgun færður af gjörgæslu. Aðgerðin mun hafa gengið vel. Maðurinn hlaut beinbrot í andliti, m.a. er ennisbein brotið og bæði kinnbein. Eftir er að koma í ljós hvort maðurinn hafi hlotið varanlegan skaða vegna áverkanna.Lögregla vildi ekkert láta hafa eftir sér um málið þegar haft var samband við hana annað en að það væri í rannsókn. Ekki fékkst heldur uppgefið hvort einhverjir hefðu verið yfirheyrðir vegna málsins.
Aðstandendur gagnrýna að lögreglan hafi ekið piltinum mikið slösuðum heim til sín í stað þess að senda hann beint á sjúkrahús. Haft var eftir lögreglu á Stöð 2 í gær að hinn slasaði hafi óskað eftir því að hann yrði keyrður heim og lögreglumenn hafi orðið við þeirri ósk.






