Með hraunbrú má hraun flæða og hækka eins og það vill
Magnús Rannver Rafnsson, verkfræðingur hjá Línudansi ehf., setti fram hugmyndir um hraunbrú þegar eldgosið í Fagradalsfjalli stóð sem hæst. Um er að ræða mannvirki, eða stokk, sem lagður er yfir vegi eða lagnir. Magnús segir að hraunbrú sé sérstaklega hentugur valkostur til að verja hitaveitulagnir og aðra línulega formaða innviði með varanlegum hætti. Hann segir tilraunir til að ná samtali við Almannavarnir vera árangurslausar. Ráðuneyti og nefnd til varnar mikilvægum innviðum undir stjórn forsætisráðuneytisins hafi því miður heldur ekki enn svarað erindum frá honum. Samstarfsaðilar Línudans í verkefninu eru Verkfræðistofa Suðurnesja, Lota Verkfræðistofa, Liska og Þorvaldur Þórðarson, prófessor.
Hvað er hraunbrú?
„Hraunbrú er ekki brú sem flytur bíla, heldur brú sem flytur hraun, yfir bíla/vegi eða annað sem þarf að verja. Hraunflæðinu er lyft yfir þá innviði sem þarf að verja. Innviðir geta verið hvað sem er, akvegur, ljósleiðari, heitavatnslagnir, annað sem er línulegt í formi og hægt er að brúa með einföldum hætti. Hún er því mikilvægur valkostur fyrir varnir lagnakerfis HS Orku og þar með mikilvægur varanlegur valkostur fyrir Almannavarnir, eini valkosturinn sem getur talist öruggur. Þá er einnig hægt að fjarlægja hraunbrúna, á svæðum þar sem hraun flæddi ekki yfir, og endurheimta upprunalega ásýnd í umhverfinu utan svæða sem ekki fara undir hraun.“
Magnús segir að unnið sé að frekari þróun hraunbrúarinnar, með hléum, í samvinnu við Háskóla Íslands en verkefnið er að taka á sig skýrari mynd.
„Verkefnið fékk styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna og við getum fjármagnað stöðugildi í þrjá mánuði í sumar. Mest er þetta þó enn unnið í sjálfboðavinnu og í algerri útilokun frá starfshópum á vegum Almannavarna. Hraunbrúin hefur verið til umfjöllunar í stærstu tæknimiðlum Norðurlanda, s.s. í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, enda um nýja hugmyndafræði og hönnun að ræða,“ segir Magnús.
Hægt að ráðast í gerð hraunbrúar núna til varnar lögnum á svæðinu
„Ég undirstrika mikilvægi hraunbrúar sem varanlegrar lausnar, þ.e. hún leysir alla þá óvissu sem bundin er í varnargörðum varðandi yfirflóð hrauns og það hvernig hraun getur á fáum vikum hækkað um tugi metra. Með hraunbrú má hraun flæða og hækka eins og það vill, á því svæði sem slík lausn er notuð, lagnir og vegir haldast óskemmdir. Þetta getur átt sérstaklega við nálægt mögulegum upptökum hraunflóðs,“ segir Magnús þegar hann er spurður út í virkni mannvirkisins og bætir við: „Það er hægt að ráðast í gerð hraunbrúar núna til varnar lögnum á svæðinu. Hér má einnig nefna að hraunbrúin er manngeng, jafnvel þótt hún sé sköluð niður á smærra form, s.s. yfir lagnir og annað, þá er skynsamlegt að halda miðju manngengri, allir innviðir eru þá aðgengilegir, öllum stundum, til viðgerðar og viðhalds. Hraunbrú yfir hitaveitulagnir er mun smærri í sniðum en brú yfir akveg, svo það sé á hreinu.“
Almannavarnir hafa hunsað samtal
Magnús segir að því sé ekki haldið fram að hraunbrú sé eina lausnin, hins vegar telur hann óábyrgt hvernig Almannavarnir hafa hunsað samtal við þá sem standa að hugmyndinni.
„Þær gerðu það strax í byrjun, líklegast vegna þess að ráðgjafarnir, stóru ráðgjafarfyrirtækin sem þeir leita til og hafa af því atvinnu nú að veita ráðgjöf um öryggisvarnir á eldgosasvæðum, telja ekki þarft að leita til sérfræðinga utan síns hóps. Gagnvart íbúum á Reykjanesskaga þykir mér þetta ekki rétt, það veit enginn hvaðan besta lausnin mun koma og því ekki rétt að útiloka eitthvað eitt. Það er merki um veikleika að geta ekki einu sinni rætt frumlegar, verkfræðilegar lausnir. Menn virðast sammála um að halda samtali uppi um að „varnargarðar“ séu eina lausnin, þrátt fyrir að vitað sé að varnargarðar hafa eingöngu takmarkað notkunargildi og veita ekki endanlega eða varanlega vörn í lengra gosi. Þetta hafa eldfjallafræðingar útskýrt. Mörg þekkt gos sýna enda hegðun sem varnargarðar munu aldrei ráða við. Óvissan er mikil, kannski verður þetta lítið gos en kannski ekki. Er ekki betra að hafa öryggið sín megin og að minnsta kosti skoða betur og undirbúa hraunbrú sem valkost til varnar mikilvægum innviðum?,“ spyr Magnús.