Með fíkniefni og hnúajárn
Lögreglan á Suðurnesjum hefur á síðustu dögum haft afskipti af allmörgum einstaklingum vegna fíkniefnamála. Karlmaður sem færður var á lögreglustöð vegna gruns um fíkniefnasölu reyndist vera með fíkniefni innan klæða. Í vörslu sinni var hann með hnúajárn, lyfseðilsskyld lyf sem ekki hafði verið ávísað á hann svo og myljara.
Í húsleit sem gerð var í umdæminu fannst amfetamín og kókaín. Tveir karlmenn voru handteknir og viðurkenndi þeir eign sína á efnunum.
Ökumaður sem ók bifreið sinni út af í Hvassahrauni reyndist vera með fíkniefni í vörslum sínum og var að auki grunaður um fíkniefnaakstur, sviptur ökuréttindum og á stolinni bifreið.
Fimm ökumenn til viðbótar voru teknir úr umferð vegna gruns um fíkniefnaakstur. Tveir þeirra voru án ökuréttinda.