Með fíkniefni og brugg
Tveir ökumenn voru handteknir í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina, grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Annar þeirra sinnti ekki stöðvunarskyldu og reyndist ekki vera með ökuskírteini meðferðis, þegar við hann var rætt. Við hlið bifreiðar hans fundu lögreglumenn svo poka með fíkniefnum, sem ökumaðurinn viðurkenndi að hafa hent út úr bílnum, þegar lögregla hafði afskipti af honum. Við leit í bifreið hans fannst flaska af heimatilbúnu áfengi.
Hinn ökumaðurinn ók yfir hámarkshraða og þegar lögreglumenn tóku hann tali sáu þeir að hann bar merki fíkniefnaneyslu. Hann viðurkenndi hana og sýnatökur á lögreglustöð staðfestu að hann hafði neytt amfetamíns.