Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Með átta bitsár eftir árás 17 hunda á Miðnesheiði
Fimmtudagur 2. júní 2011 kl. 13:58

Með átta bitsár eftir árás 17 hunda á Miðnesheiði

Guðrún Guðmundsdóttir úr Keflavík varð fyrir óskemmtilegri lífsreynslu í fyrradag þegar hún hugðist fara til eggja á svæðinu við Rockville á Miðnesheiði. Hópur sautján hunda réðst að henni og áður en Guðrún komst í skjól inn í bílnum sínum hafði hún hlotið átta bitsár eftir hundana. Atburðurinn hafi því alls ekki verið eins og hvert annað hundsbit. Lögreglan á Suðurnesjum var kölluð til og árásin verður kærð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Þegar Guðrún kom á bílastæðið við Rockville í hádeginu í fyrradag sá hún að þar var fyrir skutbifreið og þar skammt frá var kona með sautján hunda. Hún segir í samtali við Víkurfréttir að hún hafi ákveðið að bíða aðeins á meðan konan með hundana væri komin lengra út í heiðina með hundana áður en hún færi af stað sjálf í leit að eggjum.


Guðrún sagði að einn hundur úr hópnum hafi fylgt sér eftir en eigandi hans hafi reglulega kallað á hann. Töluvert langt var á milli þeirra þegar einn hundur frá konunni tekur á rás í átt til Guðrúnar og síðan fylgdu allir hundarnir á eftir. Á örskammri stund var Guðrún umkringt af 17 hundum sem stukku upp á hana og síðan segist hún hafa fundið fyrir því að hún væri bitin og það oftar en einu sinni. Guðrún segist hafa kallað á eiganda hundanna því þeir væru farnir að bíta sig.


Hundaeigandinn hafi kallað á hundana og þeir hafi ekki svarað henni. Guðrún segir að það hafi verið óþægilegt að hafa hundana stökkvandi upp á sig. Hún hafi í fyrstu ekki verið hrædd, enda hafi henni ekki dottið í hug að hundarnir myndu bíta sig.


Fljótlega varð Guðrúnu þó ljóst að hún hefði verið bitin og djúp bitsár, samtals átta talsins, eru á fótum Guðrúnar. Hún segir að hundaeigandinn hafi í fyrstu ekki viljað trúa því að hundarnir hefðu bitið hana og hélt því fram að þeir hefðu hugsanlega bara klórað hana. Guðrún komst inn í bílinn sinn og hringdi þaðan á lögregluna sem kom og tók skýrslu af bæði henni og hundaeigandanum.


Í framhaldinu fór Guðrún á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem sárin voru hreinsuð og hún fékk sprautu. Þá hefur Guðrún verið sett á sýklalyf og á eftir að fara nokkrar ferðir á HSS til frekari meðferðar á meðan sárin eru að gróa. Mikil hætta er á að sýking hlaupi í sárin, segir Guðrún.


Hún segir það samfélagslega skyldu sína að leggja fram kæru vegna árásarinnar og segist ekki geta hugsað þá hugsun til enda hvað hefði getað gerst hefði hún verið með barnabarn sitt með sér í eggjaleitinni, eins og til stóð.


Guðrún undrast að engar reglur séu til um þann fjölda hunda sem fólk má halda og það sé flestum full ljóst að einn einstaklingur ræður illa við sautján hunda við þær aðstæður sem sköpuðust í fyrradag. Guðrún er frá Fjarðabyggð á Austurlandi og þar gilda þær reglur að aðeins megi vera tveir hundar á heimili.


Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn málsins en hundaeftirlitsmaður frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja er einnig kominn í málið. Eigandi hundanna er ennþá með þá alla, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum.



Guðrún Guðmundsdóttir og Sigurrós Hávarðardóttir, barnabarn hennar, á heimili Guðrúnar í gærkvöldi. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson