Með áherslu á vellíðunarferðamennsku
Reykjanes Geopark kominn með vottun European Geoparks Network
Reykjanes Geopark vinnur að því að kveikja áhuga íbúa og gesta á Jörðinni, m.a. með því að vekja athygli á einstakri jarðsögu, fræða og annast landið. Hugtakið Geopark er skilgreint af alþjóðlegum samtökum Geoparka sem nefnast Global Geoparks Network og starfa þau undir verndarvæng UNESCO. Um 100 geoparkar eru aðilar að samtökunum í dag, þ.e. svæði sem innihalda merkilegar jarðminjar og koma þeim á framfæri. Reykjanes Geopark fékk formlega vottun sem geopark á þrettándu haustráðstefnu European Geoparks Network í Rokua Geopark í Finnlandi í september 2015. Reykjanes Geopark er annað svæðið á Íslandi til að hljóta þessa vottun en Katla Geopark hlaut hana árið 2011. Reykjanes Geopark er jafnframt 66. svæðið í Evrópu sem hlýtur þessa vottun.
Reykjanes Geopark er sjálfseignarstofnun frá fimm sveitarfélögum á Suðurnesjum og sex hagsmunaðilum sem eru aðilar að stofnuninni. Sveitarfélögin fimm eru Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Sandgerðisbær, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar. Ásamt sveitarfélögunum eru Heklan - atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, Ferðamálasamtök Reykjaness, Bláa lónið, Þekkingarsetur Suðurnesja, Keilir - miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs auk HS Orku aðilar að Reykjanes Geopark.
Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík, er stjórnarformaður Reykjanes Geopark. Víkurfréttir ræddu við Róbert um þetta áhugaverða samstarfsverkefni.
- Segðu mér frá þessari vottun sem Reykjanes jarðvangur var á fá?
„Við höfum fengið vottun evrópsku Geopark-samtakanna sem eru í tengslum við UNESCO. Við megum kalla Reykjanesið Geopark og njótum viðurkenningar þessara samtaka. Við höfum þurft að uppfylla ákveðin skilyrði til að fá þessa viðurkenningu. Það að fara í gegnum þá vinnu og uppfylla skilyrðin er mesti ávinningurinn fyrir okkur sem og að ná þessari samstöðu í því sem við höfum verið að gera.
Viðurkenningin felur það í sér að við megum nota þeirra merki, fáum aðgang að sérfræðinganeti og mun það styrkja okkur í markaðsstarfinu sem er framundan.“
– Hvað er að vera Geopark eða jarðvangur?
„Það felur það í sér að við tökum höndum saman í atvinnuþróunaráætlun. Þetta er uppbygging ferðaþjónustu og fræðslu sem byggir á einstökum jarðminjum og við erum að nýta þetta svæði sem við erum með hér inn í okkar starf.
Ef við tengjum þetta við ferðaþjónustuna þá er eitt meginverkefnið að koma í veg fyrir að það verði leki útaf svæðum, að fyrirtæki séu að koma og nýta sér jarðminjarnar og tekjurnar fari eitthvað annað. Við horfum til þess að vera „local“ og nýta þá ferðaþjónustu sem er á svæðinu eins og hótel, samgöngufyrirtæki og þess háttar. Við ætlum að reyna að byggja okkur upp sem eina heild.“
– Hvað þýðir þetta fyrir fyrirtæki á svæðinu. Hvernig geta þau nýtt sér þennan stimpil?
„Þau geta til dæmis nýtt það í markaðsstarfinu. Við erum t.a.m. með eitt dæmi hér í Grindavík, gamla Festi sem nú er orðið hótel og notar tækifærið að vera „GEO“ og vera með jarðminjar í sínum innréttingum og hótelið heitir Geo Hotel Grindavík og nær tengingunni þar inn. Veitingastaðir á svæðinu hafa síðan verið að leggja áherslu á staðbundið hráefni á sínum matseðlum. Salthúsið í Grindavík og Vitinn í Sandgerði eru dæmi um það og eru að vinna með okkur í verkefni með norskum, sænskum og kanadískum jarðvöngum sem heitir GeoFood. Það snýst um að nýta staðbundið hráefni í matargerð og koma því á framfæri. Fyrirtæki geta nýtt sér Geopark í sínu markaðsstarfi og fengið ráðgjöf og aðstoð frá okkar starfsfólki og tengingar við fólk annarsstaðar í öðrum jarðvöngum“.
– Geta menn merkt sínar framleiðsluvörur með merki Reykjanes Geopark?
„Já, það er meðal þess sem við horfum til. Katla jarðvangur hefur útbúið merki fyrir vörur sem framleiddar eru í þeirra jarðvangi og við erum að horfa til þess sama. Við sjáum til dæmis að veitingastaðir geti merkt rétti á matseðli með Geopark-merkinu þannig að viðskiptavinir sjái hvaða réttir eru unnir úr hráefni heima í héraði.“
– Það var langt og strangt ferli að fá þessa vottun?
„Já og það var mjög skemmtilegt. Við erum reyndar með þeim fljótari sem hafa fengið þessa vottun. Það tók rúmt ár fyrir Kötlu jarðvang að fá sína vottun enda með lifandi eldfjall og erfitt að segja að þeir séu ekki merkilegir. Ferlið tók okkur þrjú ár og hefur gengið prýðilega. Eggert Sólberg verkefnisstjóri hefur haldið vel utanum verkefnið. Flest þau svæði sem eru að vinna í vottun núna hafa verið að vinna að henni í 10-15 ár og því hefur okkur gengið prýðilega. Við fórum þessa íslensku leið, sóttum bara um, fengum athugasemdir, brugðumst við þeim og lögðum svo inn endurbætta umsókn. Við létum slag standa og erum að uppskera núna“.
– Þið hafið opnað upplýsingamiðstöð um jarðvanginn í Reykjanesbæ.
„Já, við opnuðum í mars landshlutamiðstöð fyrir ferðaþjónustuna í heild sinni og gestastofu Geopark. Í framhaldinu verða opnaðar minni stofur í öllum hinum sveitarfélögunum. Jafnframt erum við að opna nýja vefsíðu, reykjanesgeopark.is, þannig að sýnileikinn er að aukast. Við höfum verið að nota fánann meira og merkin eru komin upp á brautinni, við erum að vinna í því að gera okkur sýnilegri.“
- Og vinnan heldur áfram?
Já, við þurfum að standa okkur til að halda vottuninni þannig að nú hefst vinnan aftur. Við þurfum að endurnýja vottunina reglulega. Fókusinn okkar núna er úti á Reykjanesi og við Brimketil. Við ætlum að halda áfram að byggja upp þessa ferðamannastaði og við vonumst til að ferðaþjónustan bregðist vel við og byggi upp ferðaþjónustu á þessum stöðum í leiðinni.
– Hverjar eru helstu áherslur Reykjanes jarðvangs?
„Við erum að leggja áherslu á jarðminjarnar. Það eru flekaskilin, jarðvarminn og allt sem því tengist sem er okkar kjarni og við byggjum á. Við leggjum áherslu á að fólk komi hingað og skoði jarðminjar og erum með áherslu á vellíðunarferðamennsku. Bláa lónið hefur verið að byggja það upp hjá sér og við höfum það í sundlaugunum hér allt í kring. Það sem þessu tengist svo eru gönguferðir um svæðið, að hlaupa og hjóla í náttúrunni er mjög vaxandi sport. Þá er jóga og hugleiðsla í svona umhverfi stórkostleg upplifun. Að vera í geo og vera í vellíðan, það er okkar.“