Með 200 grömm af kókaíni
Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú mál karlmanns, sem reyndi að smygla tæplega 200 grömmum af kókaíni til landsins í byrjun mánaðarins. Maðurinn sem er rúmlega þrítugur Íslendingur var stöðvaður af tollgæslu þegar hann var að koma frá Kaupmannahöfn 4. mars síðastliðinn vegna gruns um að hann væri með fíkniefni í farteskinu.
Lögregla handtók manninn og reyndist hann vera með kókaínið í farangrinum. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald en hefur nú verið sleppt. Ekki hafa fleiri verið handteknir vegna málsins, en umræddur maður hefur áður komið við sögu hjá lögreglu vegna fíkniefnabrota.