Með 20 þotur og skapa allt að 200 föst störf á Keflavíkurflugvelli
Íslenska fyrirtækið E.C.A. Program Iceland ehf. er þessa dagana að vinna í fjármögnun á um 200 milljarða króna verkefni sem yrði byggt upp á Keflavíkurflugvelli. Hingað ætlar fyrirtækið að koma með 20 þotur þar sem þeim verður viðhaldið. Þannig gera áætlanir ráð fyrir að fyrirtækið skapi 150 til 200 föst störf á Suðurnesjum. Þar er verið að tala um flugvirkja, flugmenn, tæknimenn, kennara, stjórnunar- og skrifstofustörf og ýmis sérfræði- og hátæknistörf.
Unnið hefur verið að undirbúningi verkefnisins hér á landi og erlendis í tæpt ár og hefur verið haft náið og gott samstarf við stjórnvöld allan þann tíma. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta hefur mikil vinna farið fram innan bæði samgönguráðuneytis sem og utanríkisráðuneytis þar sem unnið hefur verið að því að greiða götur verkefnisins sem mun hafa mjög jákvæð efnahagsleg áhrif til næstu ára. Þannig sýna áætlanir fyrirtækisins að það sé að skila nærri 800 milljónum árlega í opinber gjöld hér á landi þegar starfssemin er komin í fullan gang.
Þeir sem að verkefninu hafa komið tala um að vinna opinberra stofnana og stjórnvalda sé 100% og heimildir Víkurfrétta herma að þar sé mikill skilningur á starfseminni. Hér á landi fari fram rekstur viðhaldsstöðvar fyrir flugflotann. Ekki sé um að ræða einkarekinn her eða hernaðarlega starfsemi, eins og haldið hefur verið á lofti í fjölmiðlum í dag. Aðstandendur verkefnisins setja fyrirtækið frekar í flokk með fyrirtækjum eins og Artic Trucks, sem margir þekkja.
E.C.A. Program Iceland ehf. horfir til samstarfs við Flugakademíu Keilis varðandi flugkennslu og að þar verði einnig menntaðir íslenskir flugvirkjar.
Nú er unnið að því að flugvélar fyrirtækisins fái íslenskt flugrekstrarleyfi og þær verði skráðar hér á landi. Heimildir Víkurfrétta segja það ferli flókið en yfirstíganlegt. Flugvélaflotinn er nefnilega ekki hefðbundinn, heldur er um að ræða Sukhoi Su-30Mk og Yakovlev Yak-130 orrustuþotur. Vélarnar eru vopnlausar og aðeins til þjálfunar.
Um leið og fjármögnun verkefnisins er lokið hefst ferli uppbyggingar þar sem fyrstu þrjár til sex þotur fyrirtækisins koma til landsins á 9-12 mánaða tímabili og síðan fjölgar þotunum jafnt og þétt en fyrirtækið E.C.A. Program Iceland ehf. áformar að vera með allt að 20 þotur í viðhaldi hér á landi auk annarrar starfssemi sem tengist aðstöðunni.
Fyrirtækið E.C.A. Program Iceland ehf. vill hafa sína heimastöð á Íslandi þar sem flugvélum er viðhaldið. Komið hefur fram í fréttum í dag að Kanadamenn hafi ekki viljað starfsemi fyrirtækisins til Kanada. Heimildir Víkurfréttir herma að ástæðan sé sú að fyrir er í Kanada fyrirtæki í samskonar þjónustu og E.C.A. Program og hafi því ekki viljað annað fyrirtæki inn af samkeppnisástæðum. Þá hefur Ísland það fram yfir Kanada að staðsetning landsins sé ákjósanlegri varðandi þau ríki sem fyrirtækið þjónustar og héðan mun styttra að fara yfir á meginlandið.
Á Íslandi er nægt loftrými og krefjandi veðurfar. Aðstaða á Keflavíkurflugvelli henti fyrirtækinu mjög vel. Þar séu þegar til staðar fjölmargar stoðir sem byggja megi á og jafnframt landrými til frekari uppbyggingar.
Húsnæðisþörf fyrirtækisins er ríflega 12.000 fermetrar. Eitthvað af þeim byggingum er þegar til staðar. Eins og Víkurfréttir greindu frá seint á síðasta ári gerðu fyrstu hugmyndir E.C.A. Program ráð fyrir því að stóra flugskýlið á Keflavíkurflugvelli, oft nefnt 885, yrði notað undir starfsemina. Áætlanir dagsins í dag gera ráð fyrir nýju viðhaldsskýli og eru tveir staðir á flugvallarsvæðinu til skoðunar fyrir þá uppbyggingu.