Matylda styrkt með ágóða Pétursmótsins
Pétursmótið í körfuknattleik var haldið í Blue-höllinni í síðasta mánuði en körfuknattleiksdeild Keflavíkur heldur mótið á hverju ári til minningar um osteopatann Pétur Pétursson sem lést árið 2016. Það voru Keflvíkingar sem stóðu uppi sem sigurvegarar en karlalið Keflavíkur, Njarðvíkur, Grindavíkur og Þróttar tóku þátt í Pétursmótinu í ár.
Magnús Sverrir Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, afhenti Margréti Þórarinsdóttur, ekkju Péturs, og börnum þeirra, Töru Lynd og Magnúsi, allan ágóða mótsins í byrjun vikunnar en það voru 900 þúsund krónur sem Margrét, Tara Lynd og Magnús voru beðin að ráðstafa til góðra verka í samfélaginu á Suðurnesjum.
Fjölskylda Péturs ákvað að ágóðinn skildi renna til Matylda Bergdísar Wiak og fjölskyldu hennar en Matylda, sem er þrettán ára gömul og nemandi í Holtaskóla, greindist með hvítblæði í mars á þessu ári og er fjölskyldan því að ganga í gegnum erfiða tíma í veikindum hennar.