Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Matvælastóriðja á Keilisnesi?
Þriðjudagur 10. janúar 2012 kl. 10:29

Matvælastóriðja á Keilisnesi?


Skrifað var undir samning milli Sveitarfélagsins Voga og Íslenskrar Matorku um fyrsta skref í uppbyggingu matvælastóriðju á Keilisnesi milli jóla og nýárs. Fyrsti samninguinn sem skrifað hefur verið undir milli fyrirtækisins og sveitarfélagsins eru um rannsóknir og nýtingu á heitu og köldu vatni á Keilisnesi sem mun vera forsenda þess að blómleg matvælaframleiðsla byggist upp á svæðinu.

Í bókun forseta bæjarstjórnar Voga á síðasta fundi bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga segir m.a.: Meginstarfsemi íslenskrar matorku ehf. felst í framleiðslu matvæla með sjálfbærum hætti og byggir á græna hringferlinu og er hluti af Græna hagkerfinu. Græna hringferlið felur í sér nýtingu aðfangna á umhverfisvænan og sjálfbæran hátt t.d. afurðir sem falla við framleiðslu svo sem afskurður, úrgangur eða næringarríkt vatn sem unnar eru áfram og þannig haft að leiðarljósi að auka virði afurða. Íslensk matorka er frumkvöðull og leiðandi á þessu sviði hér á landi og vill stuðla að slíkri uppbygginu til framtíðar á því svæði sem samningur þessi tekur til. Markmið fyrirtækisins er að nýta til framleiðslunnar endurnýjanlegar auðlindir og lágmarka öll neikvæð umhverfisáhrif.

Það er ástæða til að fagna þessum tímamótum sem mun verða til þess að styrkja Sveitarfélagið Voga sem framsækið sveitarfélag á sviði uppbyggingar matvælaframleiðslu. Sveitarfélagið hefur á síðustu árum í stefnumörkun sinni lagt áherslu á enn frekari matvælaframleiðslu í sveitarfélaginu og mótað sér atvinnustefnu þar sem framtíðarsýn og áherslur þess eru að í árslok 2015 sveitarfélagið verði öflugt á sviði matvælaframleiðslu og tengdri þjónustu. Sveitarfélagið vill marka sér stöðu sem framtíðarland þar sem náttúra og útivist haldast í hendur við menningu, nýsköpun og áherslur græns hagkerfis.

Í atvinnustefnu sveitarfélagsins kemur fram að stefnt sé að því að árið 2015 verði Vogar þekkt sem umhverfisvænt sveitarfélag með óspilltar náttúruperlur. Slík ímynd er sett fram m.a. með það að markmiði að vera aðlaðandi svæði fyrir sprotafyrirtæki. Í því skyni leggur sveitarfélagið áherslu á að skapa fyrirtækjum og einstaklingum gott starfsumhverfi þar sem meðal annars er virk opinber umfjöllun sem miðlar jákvæðri ímynd sveitarfélagsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sveitarfélagið Vogar og Íslensk matorka ehf. fyrirhuga að vinna sameiginlega að enn frekari stefnumörkun varðandi uppbygginu á matvælaframleiðslu eða ferðatengdri þjónustu á starfssvæði Íslenskrar matorku ehf. Í því felst jafnframt að sameiginlega kynna aðilar iðnaðarsvæðið fyrir fyrirtækjum sem framleiða hágæða vörur á umhverfisvænan hátt og nýta til þess umhverfisvæna orku. Svæðið fellur því undir hugmyndafræði um Græna hagkerfið, segir í bókun Ingu Sigrúnar Atladóttur, forseta bæjarstjórnar Voga.