Matur í Reykjanes jarðvangi
- Kynningarfundur á „GEOfood“ á föstudaginn
Reykjanes jarðvangur hefur boðað til kynningarfundar á verkefninu „GEOfood“ nk. föstudag kl. 9:00. Fundurinn fer fram í Eldey, frumkvöðlasetri á Ásbrú.
Á fundinum stendur til að kynna markmið verkefnisins „GEOfood" og hugsanlegan ávinning þátttakenda í því. Þátttakendur geta verið framleiðendur matvæla, veitingastaðir og ferðaþjónustuaðilar í sveitarfélögunum Reykjanesbæ, Grindavík, Vogum, Sandgerði og Garði.
Verkefnið er samstarfsverkefni nokkurra norrænna jarðvanga og fékk hæsta styrkinn úr norræna Kreanord sjóðnum í ár. Það snýr að matvælaframleiðslu innan norrænna jarðvanga, þróun nýrra leiða til að koma henni á framfæri innan jarðvanganna og auka verðmæti afurðanna. Þá er verið að leita leiða til að auka samvinnu milli framleiðenda matvæla, veitingahúsaeigenda og ferðaþjónustuaðila í jarðvöngunum.
Um er að ræða afar áhugavert verkefni sem gæti skilað þátttakendum og svæðinu okkar töluverðu ef vel tekst til, segir í tilkynningu.
Fundurinn er öllum opinn og felst engin skuldbinding í mætingu. Eins og áður segir hefst fundurinn kl. 9. Gert er ráð fyrir að hann standi í um klukkutíma. Boðið verður upp á léttar veitingar.