Matthías tekur upp millinafnið Grindvík
Húsvörður Grunnskóla Grindavíkur heitir nú Matthías GRINDVÍK Guðmundsson. Millinafnið Grindvík hefur fengið samþykki mannanafnanefndar og Matthías Grindvík, sem fer sínar eigin leiðir eins og oft áður, er alsæll með breytinguna, segir á heimasíðu Grindavíkur.
„Mér datt þetta í hug fyrir mörgum árum. Ég hef verið í veikindafríi og hundleiddist og ákvað að láta verða af þessu til að drepa tímann. Ég skrifaði bréf til Þjóðskrár og sótti um millinafnið Grindvík, það fór fyrir mannanafnanefnd og nú hefur ég bréf upp á það frá Þjóðskrá að ég heiti Matthías Grindvík Guðmundsson,“ segir Matthías Grindvík.
Hann segir að eiginkona sín hafi ekki verið með í ráðum og spurt hvað hann væri eiginlega að gera en hún er sátt við niðurstöðuna í dag og stolt af sínum manni.
„Grindvík er fallegt og rökrétt nafn. Sjáðu bara Njörð P. Njarðvík. Þetta er af sama toga, kannski ég fari að skrifa bækur eins og hann, ég hef ekkert annað að gera þessa dagana. Ég er upphaflegur Grindvíkingur, skrapp í burtu en kom aftur, fæddur í Tröð við Kirkjustíg, pabbi var héðan og hans systkini þannig að ég er Grindvíkingur og er stoltur af þessu nafni,“ sagði Matthías ennfremur.
Mynd: Var tekin fyrir ári þegar Matthías Grindvík afhenti Tónlistarskóla Grindavíkur harmonikku að gjöf. Með honum á myndinni er Inga Þórðardóttir skólastjóri Tónlistarskólans.